Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í raun segir það líka sína sögu að 3% af einhverjum aðilum úti í bæ, sem margir hverjir hafa verið dæmdir fyrir fjármálamisferli, fái aðgang að uppboði sem er almennt lokað öðrum og á kjörum sem öðrum bjóðast ekki. Í raun er smæð hópsins líka vandamál út af fyrir sig. Hvers vegna fær þessi smái hópur en ekki annar og miklu stærri hópur að taka þátt? Það er algerlega á reiki.

Það kemur fram í skýrslunni að markmiðið hjá Bankasýslunni hafi aðallega verið að ná í viðskipti frá viðskiptavinum þeirra aðila sem Bankasýslan valdi sér að eiga í viðskiptum við. Það vekur aftur upp spurningar um hvernig Bankasýslan valdi þá aðila og við erum enn þá að velta fyrir okkur öllum þessum gjöfum sem Bankasýslan fékk frá þessum aðilum. Auðvitað skiptir máli hverjir fengu að kaupa og hverjir ekki í þessu útboði. Það skiptir engu máli hvort það voru 3% eða 100%.