Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta var nú svolítið ágætt innlegg hjá hæstv. fjármálaráðherra. Hann kemur hingað upp og sakar stjórnarandstöðuna um að hafa ekkert efnislegt fram að færa og vera svakalega sorgleg þegar við biðjum um að einn af þeim ráðherrum sem sitja í ráðherranefnd um efnahagsmál og tjáir sig um allan bæ í um þessa skýrslu mæti líka til þingsins til að tjá sig. Þetta er nú bara ágætt innlegg. (Gripið fram í.) Fyndnast fannst mér samt að ráðherrann skyldi halda því fram að við værum sorgleg fyrir að hafa lítið efnislegt fram að færa en hafði sjálfur ekkert annað fram að færa en þann tittlingaskít að við hefðum óvart heimfært verkefnin upp á vitlausan ráðherra. Ég skal játa þann glæp á mig að vera ekki alveg búinn að átta mig á því hvar rykið settist í mestu uppstokkun Stjórnarráðsins í Íslandssögunni og biðst bara afsökunar á því. Það breytir því ekki að ráðherrann á alveg erindi inn í þingsalinn. (Forseti hringir.) Hvaða embætti sem hann nákvæmlega gegnir og hvað svo sem stendur í forsetaúrskurði um stjórnarmálefni þá á menningar- og viðskiptaráðherra erindi í þennan ræðustól (Forseti hringir.) til að gera grein fyrir þeim skoðunum sem hún er að gera grein fyrir um allan bæ, alls staðar nema þar sem á að gera það. (Gripið fram í.)