Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er margt í þessari ræðu. Til að byrja með um slæma og lélega upplýsingagjöf til þingsins. Það er annað með það að við fengum bara rosalega stuttan tíma hérna í þinginu til að afgreiða þetta mál. Við í stjórnarandstöðunni báðum um lengri tíma til þess einmitt að fá ráðrúm til að skoða allar þessar forsendur sem voru settar þarna upp. Við fengum það ekki, því miður, þannig að það er tvöföld gagnrýni þar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um lögin um Bankasýsluna: Eru þau svo léleg að þau leiða til þessarar niðurstöðu eða var það framkvæmdin sem var svona léleg? Hv. þingmaður segir að þarna skorti fagþekkingu en það kemur lögunum ekkert við. Ef við erum með einhverja lúða sem geta ekki sinnt starfi sínu og skortir þekkingu á framkvæmd laganna þá klúðra þeir því að sjálfsögðu. Það er bara gefið mál. Það þýðir ekki að lögin séu gölluð. Og ef það er reyndin, af hverju er þá ríkisstjórnin að henda burt lögum um Bankasýsluna?