Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um armslengd. Ég heyrði hæstv. forsætisráðherra tala um armslengd í gær í óundirbúnum fyrirspurnum. Hæstv. innviðaráðherra talar um armslengd í fréttunum í dag, allt til að afsaka hæstv. fjármálaráðherra og segja að hann beri enga ábyrgð, það sé þessi armslengd. Nú var ég fjármálaráðherrann sem mælti fyrir þessum lögum sem samþykkt voru í desember 2012, sem sérstaklega voru skrifuð um hvernig ætti að fara að þegar átti að selja hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar er ábyrgð ráðherrans skrifuð inn, hún er skrifuð inn og það er ekkert svigrúm til að setja ábyrgð ráðherrans eitthvert annað. Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvar hún sér þetta armslengdarsjónarmið í lögunum sem samþykkt voru árið 2012.