Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, hv. þingmaður, það er hárrétt, ég var þarna að rugla saman annars vegar lögum um Bankasýsluna og síðan seinni lögum um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum þar sem er líka fjallað um Bankasýslu ríkisins. Hér er það skrifað út að þegar ráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um söluna þá skuli hann útbúa greinargerð um ráðgerða sölumeðferð og leggja fyrir fjárlaganefnd og þetta sem við höfum farið í gegnum hérna og hefur komið fram að hefði betur mátt fara. En ég sé hins vegar ekkert í þessu sem bendir til þess að ráðherrann hafi ekki uppfyllt lagaskyldu sína eða brotið nokkur lög heldur einfaldlega að þarna hefði verið hægt að standa betur að málum og það er mjög oft hægt án þess að lög séu brotin.