Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:24]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er spurt um viðskiptin fyrir útboðið. Þetta er auðvitað eitthvað sem ég ætla rétt að vona að Fjármálaeftirlitið sé að kanna vegna þess að það er bara mjög alvarlegt mál ef það kann að vera að það hafi lekið út að þetta útboð væri að fara að eiga sér stað þarna skömmu eftir. Það er auðvitað allur gangur á því hvers konar verðmyndun á sér stað þegar það eru svona lítil viðskipti og það er svolítið erfitt að fullyrða um það. Það sem mér finnst hins vegar standa upp úr í þessari skýrslu eru áhrif þessara erlendu fjárfesta, sem seldu sig strax út úr bankanum, á verðmyndunina. Þetta eru aðilar sem ákvörðuðu verð á þjóðareign, ákváðu verð til allra annarra fjárfesta, aðilar sem seldu síðan bréf sín nokkrum dögum seinna til lífeyrissjóðanna, stórra, stöndugra fjárfesta sem voru tilbúnir að kaupa á hærra verði. Þetta þarf að skoða betur og það þarf að velta því upp hvort þetta hafi verið eðlilegt. Ríkisendurskoðandi bendir á það að hvergi í markmiðum með sölunni sé talað um að það sé eðlilegt að erlendir aðilar séu verðmyndandi í þessu útboði. Þannig að þetta er bara steinn sem á enn þá eftir að velta við.