Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:49]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Við höfum hér til umræðu mikilvæga og gagnlega skýrslu. Hún er partur af því sem nú er útistandandi, þar sem ákveðin atriði varðandi framkvæmd þessarar sölu eru til skoðunar hjá þar til bærum aðilum sem verður ekki síður mikilvægt fyrir þingið að fá veður af þegar það er til lykta leitt. Undir er mjög mikilvægt traust til fjármálakerfisins, stjórnvalda og til þess bærra aðila sem við treystum fyrir að íhlutast til um þessa mikilvægu hluti. Því fagna ég umræðunni í dag og þakka fyrir þessa gagnlegu skýrslu sem ég vona að við munum geta tekið með okkur inn til betra verklags í framtíðinni.

Auðvitað er augljóst öllum sem lesa skýrsluna að framkvæmdin var á köflum augljóslega ekki góð. Fyrir mitt leyti var t.d. kaflinn um hið ágæta excel-skjal og að því er virðist einhvers konar misskilning sem átti sér stað varðandi punkta og kommur, eða hvað það var, algerlega óásættanlegur og það verður að segjast eins og er.

Í þessari skýrslu eru auðvitað líka önnur atriði sem er vert að staldra við. Mér finnst kannski ekki síst eftir umræðu dagsins nauðsynlegt að við förum aðeins yfir og minnum okkur á forsögu þessa máls og af hverju það er um margt flókið. Forsagan er í stuttu máli sú að eftir fjármálahrunið fannst ráðherrum þáverandi vinstri stjórnar mikilvægt — mögulega skiljanlega miðað við stemninguna í samfélaginu á þeim tíma — að sérstök stofnun myndi fara með eignarhluti ríkisins í bönkunum sem væru þá í ákveðinni fjarlægð frá stjórnmálunum og pólitík viðkomandi ráðherra. Að gamni mínu skoðaði ég þingræður til að átta mig á hvernig landið lá á þeim tíma. Það er algerlega augljóst að í umræðu þess ráðherra sem mælti fyrir málinu var talað fyrir því og meira að segja notað hið margnefnda orð, armslengd. Þetta var ákvörðun sem var tekin í því umhverfi sem þá ríkti og ég ætla svo sem ekkert að gagnrýna það. Ég hef þó verið sammála núverandi fjármálaráðherra sem allt frá árinu 2015 hefur bent á og viljað breyta þessu fyrirkomulagi, að það sé óheppilegt að um margt sé óljóst hvar ábyrgðin liggur í þessu risastóra hagsmunamáli, og lagði fram frumvarp þess efnis 2015. Í þeim umræðum á þinginu voru viðbrögðin mjög afgerandi um að þarna væri ráðherra að reyna að skipta sér af stofnun sem ætti að vera með öllu og algerlega afskiptalaus.

Það var svo ekki í rauninni fyrr en við söluna í mars að kannski fleiri en fjármálaráðherra áttuðu sig á að þetta fyrirkomulag væri ekki sem heppilegast. Ríkisstjórnin boðaði í kjölfarið, strax í vor, breytingar á því fyrirkomulagi. Vonandi mun þessi umræða hér hjálpa til við að við mótum okkur sem bestar skoðanir á því hvernig verði best haldið utan um þetta. Það sem er ekki síst flókið í þessu máli er þetta með ábyrgðina. Það verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið í því að vilja annars vegar gera mjög mikið úr og undirstrika að ráðherra megi í engu skipta sér af einstaka ákvörðunum en vilja svo hins vegar að ráðherra beri alla ábyrgð á viðkomandi ákvörðunum. Það er auðvitað flókið og held ég að allir hér inni geti séð það. Það sem er hins vegar nokkuð skýrt í lögunum, sem eru þó að mínu viti um margt óskýr sem gerir alla umræðu hér miklu flóknari en hún þyrfti að vera, er að markmiðin í stóra samhenginu, stóra sýnin, leiðarljósin, eru á ábyrgð ráðherra. Þau markmið má finna í greinargerð hans sem er lögum samkvæmt það plagg sem er lagt fyrir þingnefndirnar tvær, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, til að taka afstöðu til, koma með athugasemdir og eftir atvikum tillögur til breytinga. Við sáum þetta lagalega ferli ganga mjög vel í frumútboðinu þar sem nefndirnar báðar höfðu talsverðar skoðanir á því hvaða atriði þyrfti að passa upp á. Tekið var tillit til þeirra en málið var auðvitað öðruvísi vaxið þá þar sem um almennt útboð var að ræða og það þurfti að gera sérstaka lýsingu. Verklagið var í rauninni öðruvísi en það var samt ekki að neinu leyti öðruvísi nú nema kannski að því leyti að þingnefndirnar, af einhverjum ástæðum, komu kannski ekki með jafn mikil viðbrögð við þessum seinni fasa.

Það sem ég verð að fá að nefna sérstaklega, þrátt fyrir að ég ætli kannski ekki að fara í einstök smáatriði, er að það kemur mér á óvart eftir umræðuna hér að það hafi komið fólki á óvart að einhvers konar áhersla væri lögð á og æskilegt hefði verið að fá erlenda fjárfesta að borðinu. Í greinargerð ráðherra er fjallað — það má kannski ítreka að það er greinargerð ráðherra sem hefur eitthvert lagalegt gildi í þessu ferli, þá geri ég ekki lítið úr kynningarefni Bankasýslunnar sem auðvitað skiptir máli en greinargerð ráðherra er það plagg sem þingnefndirnar fá til yfirlestrar — frekar skýrt um fjölbreytt eignarhald. Þar segir frekar skýrt að ekki sé bara verið að leitast eftir hæsta verði enda ætti það að segja sig sjálft. Auðvitað hefði verið einfaldasta mál í heimi að finna ríkasta manninn á Íslandi og spyrja hvort hann vildi kaupa Íslandsbanka fyrir ofboðslega mikinn pening. Ríkissjóður hefði örugglega komið ágætlega út úr því, en samt ekki. Hvernig hefði eftirmarkaðurinn verið? Hvernig hefði traust á fjármálakerfinu verið? Hvernig hefði traust á bönkunum verið? Allt eru þetta atriði sem verður að hafa í huga. Því er það fullbillegt að kasta því fram hér að þarna hafi hæsta verð verið virt að vettugi, eins og það komi algerlega upp úr engu, og að erlendir aðilar séu eitthvað sem enginn átti von á þegar það hefur þvert á móti líka verið til umræðu fyrir frumútboðið að það besta sem gæti komið fyrir bankann og íslenskt fjármálakerfi væri að fá stönduga erlendra aðila að borðinu.

Í þessu samhengi ætla ég að leyfa mér, forseti, út af umræðunni í dag að vitna í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd í vor þegar þetta mál var lagt á borðið. Þar segir, með leyfi forseta:

„… er nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á að fá fjölbreyttari fjárfesta að borðinu og fleiri alþjóðlega fjárfesta og tilboðsfyrirkomulag getur verið betur til þess fallið að laða að langtímafjárfesta með reynslu. Reynslan frá útboðinu árið 2021 sýnir okkur að það er mjög krefjandi fyrir ríkið að fá erlenda fjárfesta að borðinu.“

Þarna var þingferlið að virka. Þarna kom athugasemd sem studdi við markmið ráðherra og ég skil ekki ráðherra öðruvísi en að tekið hafi verið tillit til þess. Ég verð því að segja að það kemur mér ofboðslega á óvart að kannast ekki við það núna að erlendir aðilar hafi skipt máli í þessu öllu saman. Út af umræðunni varðandi þessa ágætu erlendu aðila, þar sem þeir komu bara, tóku snúning og gerðu okkur öll að fíflum eins og mátti skilja af umræðunni, þá er fimmti stærsti eigandi bankans erlendur enn þann dag í dag og er elsti og stærsti fjárfestingarsjóður í heimi. Einhverjum þætti það nú ágætlega gert.

Talandi um markmið ráðherra í greinargerðinni hans, bara svo það sé sagt, þá er fjallað um þetta tilboðsfyrirkomulag sem um er rætt. Þar er minnst á afsláttinn og það er ekki gert í neðanmálsgrein eins og ég hef heyrt talað um hér í dag heldur í venjulegum texta. Það er tekið fram að hann eigi að vera lítils háttar því að það var skýrt frá hendi ráðherrans að hann ætti ekki að vera mikill, enda varð lendingin sú að hann er langtum lægri en almennt gerist í Evrópu í svona útboðum. Síðasta dæmið er þegar írska ríkið seldi risahlut írskum banka núna á síðustu vikum, sá afsláttur var tæplega 7%.

Í lokin á þessum smáatriðum mínum langar mig að segja að mér þykir ekki rétt að tala um lokað ferli. Þvert á móti er talað um þetta sem opið söluferli á fjármálamarkaði. Það er lokað þegar einhverjir ákveðnir aðilar eru handvaldir. Talað er um opið söluferli þegar allir sem eru skilgreindir sem fagfjárfestar fá að taka þátt, svo að því sé haldið til haga

Í blálokin verð ég að fá að leyfa mér að vera svolítið hissa á furðuumræðu stjórnarandstöðunnar hér í dag um að það sé einhvern veginn ekki skýrt að Ríkisendurskoðun hafi lagt mat á það hvort ráðherra hafi brotið lög í þessu ferli. Ríkisendurskoðun segir í tilkynningu sinni með þessari skýrslu að rannsóknin taki til hvernig staðið var að sölu umræddra eignarhluta út frá lögum, skilgreindum markmiðum og góðum stjórnsýsluháttum. Mér þykir umræðan hér, þar sem ýjað er að því að eftir þessa rannsókn og vinnu alla sé niðurstaðan að aðkoma ráðherra hafi í engu verið skoðuð og sé enn útistandandi í þessu máli, vera ómerkilegur útúrsnúningur og ég verð að fá að segja eins og er.

Ég sem fulltrúi í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verð að fá að segja hér: Ég held að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verði að ná saman um á hvaða plánetu við séum. Hvað er sanngjarnt? Hvert er sameiginlegt umfjöllunarefni okkar gagnvart þessari skýrslu? Komumst aðeins nær hvert öðru í því hvað snýr upp og niður í þessu áður en við höldum umfjöllun okkar áfram til þess að hún verði til gagns, til að þessi gagnlega skýrsla sem getur orðið grunnur og utanumhald þess hvernig við getum gert betur verði í alvöru til einhvers gagns, frekar en að við séum með gífuryrði og upphrópanir í umræðunni eins og var hér í vor. Ég sé enga ástæðu til þess að við ættum að gera það. Þetta er fín skýrsla og efnismikil, í henni er fullt af atriðum til að taka á. Ég held að við ættum að gera það en spyrja okkur hvort það sé sanngjarnt að ýja í alvöru að því að ríkisendurskoðandi hafi látið það liggja á milli hluta hvort ráðherra hafi brotið lög. Ég held að við séum betri en þetta.

Ég held líka, forseti, að eitt sé vinna úr gagnlegum gögnum sem þinginu berast til þess að við náum betur utan um mál. En ég hef líka þá pólitísku sýn og trú að það sé einnig mjög mikilvægt, til að við getum haldið áfram á þessari vegferð, að losa ríkið úr áhættusömum fjármálarekstri og að ríkið fari af þessum samkeppnismarkaði sem það á ekki heima á. Nú þegar hafa yfir 100 milljarðar verið nýttir í innviði fyrir fólkið í landinu. Til að við getum haldið þeirri vegferð áfram verðum við að taka þessa ágætu skýrslu og læra af henni, reyna að vera svolítið sanngjörn gagnvart því sem hún segir til að við getum tekið næstu skref áfram.