Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:05]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek undir að það er flókið hvernig ábyrgðin skiptist í þessum aðstæðum eins og ég kom inn á í minni ræðu. Stjórnarráðslögin eru skýr um það að ráðherrar beri ábyrgð og fari með eftirlits- og stjórnunarheimildir sínar, nema þegar sjálfstæði stofnana takmarkar það hlutverk. Það er í rauninni það leiðarljós sem við höfum til að vinna með og hefur alla vega mátt lesa úr því hvað er skilgreint sem á hendi ráðherra, þá er neikvæða skilgreiningin lagaleg, þ.e. að hitt falli þá undir hina sjálfstæðu stofnun. En ég stend ekki hér og fullyrði hvernig þetta er lagalega, ég er að segja að þetta sé lagalega flókið. Ég myndi halda að grófu línurnar liggi einhvers staðar þarna en tel það vera algerlega augljóst að þær ákvarðanir sem eru hérna undir um verð, hverjir þetta voru o.s.frv., hafi að sjálfsögðu verið hjá þessari sjálfstæðu stofnun en ekki hjá ráðherra, því til þess var stofnunin búin til.