Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðherra hefur sjálfur sagt að hann taki ákvörðun um verðið. Um það snerist símtalið frá Bankasýslunni til ráðherra, að láta hann vita af ráðleggjandi verði Bankasýslunnar sem ráðherra tekur síðan ákvörðun um. Til að byggja sína ákvörðun á einhverju þá þarf ráðherra upplýsingar til að vera viss um að hann sinni öllum krókum og kimum þeirra skyldna sem hann ber ábyrgð á. Það er verið að skipta um ábyrgðarvettvang á þessu dæmi. Ég held að við hefðum einmitt átt að læra af Landsréttarmálinu um hvar ábyrgð ráðherra liggur og hvar ekki. Þegar hæfnisnefndin t.d. skilar sínum tillögum til ráðherra þá er ráðherra kominn með ábyrgðina á sitt borð. Ef ráðherra ákveður að kvitta upp á t.d. skipun dómara eða skipun í embætti þá er það ákvörðun ráðherra og á ábyrgð ráðherra. Þetta er ekkert flókið. Það sama gildir um skipanir þegar gengið hefur verið gegn jafnréttislögum. Ef ráðherra breytir út af einhverju ber hann ábyrgð þar. Ef kvittað er undir eitthvað samkvæmt tilnefningu hæfnisnefndar (Forseti hringir.) þá er ábyrgðin hjá hæfnisnefndinni en ekki ráðherra. En ráðherra getur misfarið (Forseti hringir.) með eftirlit sitt og vanrækt að fara nægilega vel yfir rökstuðninginn. Þetta er ekkert flókið.