Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:14]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er búið að ræða mikið um svokallaða armslengd, stundum í jákvæðum tón og í annan stað í neikvæðum tón eftir því hver á í hlut á hvaða tíma. Hér nefndi hv. þingmaður að Bankasýslan hefði verið stofnuð af þeim sem réðu ríkjum eftir hrun en það var auðvitað vegna þess að hrunið hafði átt sér stað, vegna þeirra ákvarðana sem þáverandi stjórnvöld höfðu tekið hvað varðar helmingaskipti á fjármálafyrirtækjum á þeim tíma. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því: Ef ekki Bankasýslan, ef ekki armslengd, hvað þá? Er rétt að fjármálaráðuneytið og fjármálaráðherra sýsli með sölu eigna í framhaldinu en ekki einhver stofnun sem ætti að sjá um sölu og utanumhald á fasteignum eða eignum ríkisins? Hvaða augum lítur hv. þingmaður á þetta?