Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:17]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Forseti. Mig langar líka að spyrja um aðferðina sem valin var, þessa svokölluðu tilboðsleið. Mörg okkar hafa verið að bíða eftir því að við fengjum samkeppni á fjármálamarkaði, helst með aðkomu erlendra aðila sem gætu komið hér inn og veitt íslensku fjármálakerfi einhverja samkeppni. Þess vegna var fólk tilbúið til þess að skoða þessa svokölluðu tilboðsleið vegna þess að gefið var í skyn að þar væri um að ræða að laða að stóra, sterka kjölfestufjárfesta. En niðurstaðan varð hins vegar sú að það koma þarna inn aðilar sem gátu keypt, aðilar sem hefðu bara getað keypt á eftirmarkaði fengu að kaupa. Var þetta ekki bara misnotkun á þeirri aðferð sem var verið að bjóða okkur upp á, að hleypa þessum aðilum að?