Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:22]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig rámar í orðið armslengd í lögunum um Bankasýslu ríkisins frá 2009. Getur ekki hugsast að hér sé hv. þingmaður að tala um þau lög eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir fyrr í dag? Ég vil bara minna á það að Bankasýsla ríkisins var ekki sett sérstaklega á fót til þess að annast sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það eru lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, þau sérlög sem samþykkt eru seinna, sem fjalla um það. Armslengdarreglan sem er einmitt talað svo oft um í samhengi við eigendastefnu og eignarhald ríkisins á fyrirtækjum snýst um að stjórnmálamenn séu ekki að vasast í daglegum ákvörðunum félaga sem ríkið á hlut í og það skuli staðið faglega að vali á stjórnarmönnum og slíku. Þetta eru ákveðin sjónarmið sem eiga sér stoð í lögum um Bankasýslu ríkisins frá 2009 en það eru hvergi skrifuð nein armslengdarsjónarmið inn í lögin um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum frá 2012. Það er bara þannig. Þetta er einhvers konar eftiráskýring sem virðist vera búin til, (Forseti hringir.) því miður, ég ætla bara að segja það, til að firra hæstv. ráðherra ábyrgð.