Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Aðeins um smá agnúa. Í fyrsta lagi þá var ég í 4. minni hluta fjárlaganefndar og lagðist gegn því að hæstv. fjármálaráðherra fengi að selja þennan banka, það var því ekki bara Flokkur fólksins sem var á móti því að bankinn yrði seldur í þessari atrennu þótt tillögurnar í fjárlögum hafi vissulega verið öðruvísi. Það er best að hafa það alveg skýrt að við vorum tvímælalaust á móti því að fjármálaráðherra fengi að selja bankann því að honum var tvímælalaust ekki treystandi til þess, eins og kemur á daginn í þessari bankaskýrslu.

Hitt sem má agnúast út í er að fjármálaráðherra básúnar hér fram og til baka að það sé augljóst að engin lög hafi verið brotin af því að það stendur hvergi í skýrslunni — þ.e. það stendur ekki í skýrslunni en hann er einhvern veginn að reyna að segja það.

Á sama hátt segir hv. þingmaður að lög hafi verið brotin. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að það sé hvorki hægt að fullyrða um hvort lög hafi verið brotin eða ekki. Það er einmitt afstaða Ríkisendurskoðunar. Þegar eitthvað snýst um ákveðna túlkun á því hvort lög hafi verið brotin eða ekki, þá tekur Ríkisendurskoðun ekki afstöðu. Ég get hins vegar alveg sagt að það er allt sem bendir til þess í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar að klúðruð framkvæmd, t.d. hvernig svona tilboðsferli sé ekki í anda laga sem tilgreina um opið söluferli, sé tvímælalaust eitthvað sem ætti að teljast lögbrot. En það er ekki búið að taka formlega afstöðu til þess hvort lög hafi brotin eða ekki, sem fjármálaráðherra vill einmitt fara í ystu æsar með. Málið er ekki alveg þar eins og er, gögnin benda í þá átt að við séum komin nær því að vísbendingar segi okkur að lög hafi verið brotin. Þess vegna þurfum við rannsóknarnefnd.