Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:39]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa farið fram yfir ræðutíma en ég stóð reyndar í þeirri trú að ég hefði 15 mínútur. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Í heimild fjárlaga var Flokkur fólksins eini flokkurinn sem greiddi atkvæði á móti því að fjármálaráðherra yrði veitt heimild og ég veit um það að Píratar lögðust gegn sölunni sl. vor í nefndaráliti, en ég þakka honum fyrir að skýra þetta enn frekar.

Varðandi lögbrotið. Ríkisendurskoðun segir að það falli fyrir utan hlutverk Ríkisendurskoðunar að taka afstöðu til ágreiningsefna um lagatúlkun og ber embættinu að gæta varúðar að álykta almennt um túlkun og skýringu laga, enda er öðrum falið það hlutverk. Hverjum öðrum? Jú, rannsóknarnefnd Alþingis. Það er hún sem þarf að skera úr þetta og rannsaka. Við getum ekki farið með mál til dómstóla. Alþingi getur ekki farið til dómstóla og sagt: Heyrðu, fjármálaráðherra braut lög og við viljum að dómstólar skeri úr um það. Nefndin þarf að rannsaka það alveg eins og rannsóknarnefnd Alþingis um hrunið komst að þeirri niðurstöðu að vanræksla ákveðinna embættismanna og ráðherra væri lögbrot.

Ríkisendurskoðun segir líka sérstaklega að ekki sé lagt mat á að vinnubrögð umsjónaraðila með ferlinu, söluráðgjafa og söluaðila hafi verið í samræmi við gildandi lög. Það er ekki hlutverkið. Hæstv. fjármálaráðherra getur ekki sagt að þessi skýrsla segi að hann brjóti ekki lög. Það er ekki hlutverk skýrslunnar að gera það svo það liggi algerlega fyrir.

En hvað gerir skýrslan? Ef við skoðum 3. gr. um meginreglur við sölumeðferð þá skal leggja áherslu á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Skýrslan segir að öll þessi atriði hafi raunverulega verið brotin. Það var ekki opið söluferli, ekki gagnsæi, ekki hlutlægni og ekki hagkvæmni. Það segir í greininni, með leyfi forseta: „Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti.“ Það var ekki gert. Selt var á genginu 117 en ekki 122 þegar 120% eftirspurn var fyrir. Það er brot á lögunum. Skýrslan fjallar alveg um þetta allt saman en hún segir bara ekki að lögin hafi verið brotin.