Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:51]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og ég held að við séum bara á sömu slóðum hvað þetta varðar. Auðvitað þykir manni líka kostulegt að í þessu útboði fengu aðilar að kaupa fyrir rúmlega milljón, 1.100.000, sem hvert okkar sem var hefði getað keypt en við fengum ekkert boð um slíkt eða fólkið í kringum okkur. Mig langar aðeins að nefna, af því að það var veruleg umframeftirspurn og miðað við 117 var tæplega 300% umframeftirspurn. Þá er spurningin: Hvernig var skorið niður? Hverjir urðu fyrir niðurskurðarhnífnum? Ég held að ég hafi lesið það í skýrslunni frekar en annars staðar að þeir aðilar sem buðu hafi orðið fyrir frá 30 og eitthvað prósentum í skerðingum upp í 98%. Það voru einhverjir sem fengu að kaupa 2% af því sem þeir óskuðu eftir. Það hefur hvergi komið fram, hvorki í skýrslunni né annars staðar, hvaða aðferð var beitt til að skera bjóðendur niður. Það er að mínu mati eitthvað sem ætti að liggja ljóst fyrir og hefði átt að liggja ljóst fyrir áður en til útboðs kom, með hvaða hætti yrði skorið niður ef það yrði um umframeftirspurn að ræða. En það er okkur algerlega hulið hvernig menn gerðu þetta. Hverju komu með niðurskurðarhnífinn? Hverjir voru valdir? Hverjir voru útvaldir til að fá að kaupa í þessum banka? Hverjir voru skornir niður um 98%.