Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Byrjum aðeins á hlutlægninni því að hún skiptir rosalega miklu máli, sérstaklega í þessu fyrirkomulagi. Hlutlægni er í rauninni flóttaleið ráðherra frá ábyrgð hvað varðar hæfi hans. Ef það var búið að tryggja þessar hlutlægu reglur um jafnræði fyrir fram þá er hann í rauninni búinn að sinna sinni skyldu hvað jafnræði varðar. Það er búið að setja upp reglurnar og þá þarf hann í rauninni ekkert að gera nema ákveða eða athuga kannski hvort það hafi örugglega verið farið eftir þeim reglum. Þær gætu jafnvel fríað ráðherra frá spurningunni um hæfi varðandi föður hans. En allar vísbendingar benda til þess og umsagnir Bankasýslunnar benda til þess og skýrsla ríkisendurskoðanda líka að hlutlægni hafi ekkert verið þarna, það var huglægt mat. Huglæga matið fólst t.d. í því hverjir fengu að taka þátt. Vitnisburðurinn fyrir nefndinni var einhvern veginn á þann hátt að það reyndu allir að hringja í alla hæfa fjárfesta sem gætu mögulega flokkast sem slíkir. Þannig hafi verið reynt að tryggja jafnræði allra sem flokkuðust sem hæfir fjárfestar. (EÁ: Þeir báðu um það.) Já, það er ómögulegt að það virki þannig. Gögnin benda til þess að þetta hlutlæga mat hafi hvergi verið til staðar. Já, ég næ kannski hæsta verðinu í næsta svari og svo var eitt atriði í viðbót sem hv. þingmaður kemur kannski inn á aftur.