Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem samþykkt voru í desember 2012, áttu að skapa trausta umgjörð ef ætti að selja hlutina. Leiðarstef laganna eru gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Draga átti dýran lærdóm af bankahruninu. Salan í höndum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur hins vegar orðið til þess að almenn óánægja ríkir og traust til ráðherrans og ríkisstjórnarinnar hefur beðið hnekki. Ásakanir um spillingu og vanrækslu eru háværar og um að lögin um söluna hafi verið brotin. Aðferðin sem fjármála- og efnahagsráðherra samþykkti að nota var lokað útboð, ætlað hæfum fjárfestum, ætlað fagfjárfestum. Á Íslandi er ekki til neinn opinber listi yfir fagfjárfesta líkt og víða erlendis. Hér þarf hver miðlari að flokka viðskiptavini sem almenna fjárfesta eða fagfjárfesta eftir forskrift í lögum. Einstaklingar sem skilgreina mætti sem almenna fjárfesta fengu að taka þátt í lokaða útboðinu líkt og þeir sem skilgreindir eru sem fagfjárfestar. Fjármálaeftirlitið hefur nú kallað eftir upplýsingum um þessa flokkun á þeim sem tóku þátt í útboðinu og er að vinna þær upplýsingar og fleiri og sagt er að niðurstaðan verði kynnt í janúar á næsta ári. Niðurstaðan virðist vera sú að miðlararnir gátu bætt í hóp þeirra sem fengu að kaupa á afslætti fram á síðustu stundu. Við höfum séð listann yfir þá sem keyptu. Þar eru margir smáir fjárfestar sem fengu afslátt á þeim forsendum að þeir væru eftirsóttir eigendur bankans.

Þingmenn stjórnarflokkanna sem og stjórnarandstöðu hafa lýst vonbrigðum sínum með niðurstöðuna. Nú hefur ríkisendurskoðandi kynnt niðurstöðu sína og dregur upp dökka mynd af söluferlinu, mynd sem mér finnst augljóst að ekki sé hægt að lýsa eða nota önnur orð um en vanrækslu og fúsk af hálfu Bankasýslu og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Í 1. gr. laga nr. 155/2012, um bankasölu, eða um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. er tilgreint hvað ráðherra er heimilt að selja af eignarhlutum í bönkunum. Þegar lögin voru samþykkt í desember 2012 áttum við 5% í Íslandsbanka, 13% í Arion banka og 81% í Landsbanka. Samkvæmt lögunum á að halda eftir í eigu ríkisins 70% af Landsbanka. Það var svo á árinu 2015 sem ríkið sat með nánast allt bankakerfið í fanginu og umræða hófst um sölu á stærri hlutum. En lögin um söluna eru þau sömu og þau eru enn í fullu gildi. Og ég hef fréttir að færa hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Það þarf að fara eftir lögunum jafnvel þó að hann sjálfur hafi greitt atkvæði gegn þeim fyrir tíu árum síðan.

2. gr. laganna fjallar um ákvörðun um sölumeðferð. Bankasýslan gerir tillögu um sölumeðferðina og þegar ráðherra hefur fallist á tillöguna leggur hann greinargerð um hana fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Ráðherra leitar einnig umsagnar Seðlabankans, m.a. um gjaldeyrisforða og laust fé í umferð. Í greinargerð ráðherrans eiga að koma fram upplýsingar um helstu markmið um sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð verði beitt og hvernig sölumeðferð verði háttað. Er umsagnir hafa borist ráðherra tekur hann ákvörðun um hvort söluferli verði hafið í samræmi við efni greinargerðarinnar eða hvort hann gerir breytingar á fyrirhugaðri sölumeðferð eftir að hafa tekið tillit til umsagna. Ráðherra hefur heimildir samkvæmt lagagreininni til að gera breytingar á tillögum Bankasýslunnar. Honum er því ætlað að hafa virkt hlutverk í ákvarðanatöku um sölumeðferðina.

Jafnvel þó að ríkisendurskoðandi leggi ekki mat á hvort vinnubrögð við söluna hafi verið í samræmi við gildandi lög er skýrsla ríkisendurskoðanda áfellisdómur yfir bæði Bankasýslu og ekki síður hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem, líkt og stendur á bls. 26 í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem við ræðum hér, með leyfi forseta:

„Þótt ekki sé gert ráð fyrir aðkomu ráðherra að framkvæmd sölunnar ber hann engu að síður ábyrgð á því að söluferlið sé í samræmi við þær forsendur og þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar í greinargerð hans. Honum ber því að hafa eftirlit með söluferlinu og ganga úr skugga um að það hafi verið í samræmi við greinargerðina áður en hann tekur ákvörðun um sölu.“

Ríkisendurskoðun segir í athugasemdum sínum að Bankasýslunni hafi ekki tekist að miðla upplýsingum um fyrirhugaða sölu með skýrum og árangursríkum hætti og sama megi segja um upplýsingagjöf fjármála- og efnahagsráðuneytisins við birtingu greinargerðar ráðherra.

Bankasýslan hefur sagt að hvert skref í söluferlinu hafi verið tekið í nánu samstarfi við stjórnvöld sem hafi verið ítarlega upplýst um öll skref sem stigin voru, enda gera lögin sem samþykkt voru í desember 2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, ráð fyrir því. Hæstv. fjármálaráðherra telur sig ekki hafa brotið lögin en vísar á Bankasýsluna og lætur eins og hann sjálfur hafi ekki getað gert betur.

Fjallað er um meginreglur við sölumeðferð í 3. gr. laganna. Áherslan er á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Skilyrðin sem sett eru eiga að vera sanngjörn og tilboðsgjafar eiga að njóta jafnræðis. Þá skal við söluna kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði. Í frumvarpi til laganna segir um 3. gr., með leyfi forseta:

„Þannig er mikilvægt varðandi sölu eignarhluta ríkisins að jafnræðis sé gætt milli þeirra sem koma til greina sem mögulegir kaupendur svo að allir líklegir kaupendur hafi jafna möguleika á því að gera tilboð. Jafnræði verður best tryggt með því að skilyrði við sölu séu fá, skýr og öllum ljós.“

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru gerðar ítarlegar og alvarlegar athugasemdir um að söluferlið hafi ekki verið opið, það hafi ekki verið gagnsætt, lagt hafi verið huglægt mat á gögn og hagstæðustu tilboðum ekki tekið.

Um sölumeðferðina er fjallað í 4. gr. laganna. Þar er farið yfir hvað Bankasýslunni er ætlað að gera, þ.e. að undirbúa söluna, leita tilboða, meta tilboð, hafa umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð. Seinni málsgrein 4. gr. er svona, með leyfi forseta:

„Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Hér er alveg skýrt að það er ráðherra sem tekur ákvörðun um tilboðin, samþykkir þau eða hafnar. Ráðherrann getur ekki falið sig á bak við Bankasýsluna eða miðlara úti í bæ. Ráðherra ber ábyrgð.

Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að umgjörðin um bankasöluna hafi ekki haldið og því þurfi að breyta henni og byrja á að leggja niður Bankasýsluna. Mér finnst hins vegar augljóst að fjármála- og efnahagsráðherra hafi ekki haldið sér innan umgjarðarinnar sem lögbundin er og á því þurfi hann að axla ábyrgð.

Næstum allir á Íslandi eru óánægðir með söluna á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Könnun Fréttablaðsins frá því í vor sýndi að 83% landsmanna sögðust vera óánægð með hvernig tekist hefði til. Fólki brá þegar listinn yfir þá sem keyptu var birtur. Nöfn eru á listanum sem þjóðin þekkir af biturri reynslu í aðdraganda bankahrunsins. Faðir fjármálaráðherrans og frændur eru þarna líka, nokkrir af þeim sem sáu um söluna meira að segja og erlendur fjárfestingarsjóður sem keypti og seldi strax með góðum hagnaði í fyrra útboði fékk tækifæri til að leika sama leik. Formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sagði í ræðu á Alþingi í vor að hún hefði staðið í þeirri trú að um langtímafjárfesta væri að ræða og því hafi niðurstaðan komið á óvart. Formaður fjárlaganefndar, þingmaður Vinstri grænna, hefði átt að vita að Sjálfstæðismönnum er ekki treystandi til að fara með eignir og fjármál almennings.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði í umræðunni fyrr í dag að það að halda því fram að hann hafi brotið lög með sölunni væri líkt og að samgönguráðherra yrði dreginn til ábyrgðar ef einhver færi yfir á rauðu ljósi. Þessi ummæli hæstv. ráðherrans sýna svo ekki verður um villst að hann skilur ekki ábyrgð sína samkvæmt lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það er nefnilega engin armslengd á milli ráðherra og Bankasýslu. Þvert á móti er hlutverk og ábyrgð ráðherrans skrifuð inn í lögin og ekkert svigrúm gefið til að senda þá ábyrgð eitthvert allt annað.

Ég leyfi mér að fullyrða, forseti, að í öllum hinum norrænu ríkjunum hefði ráðherra í sömu stöðu og íslenski ráðherrann er sagt af sér strax í vor.