Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:57]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni er mikið niðri fyrir um að ráðherra hafi tekið ákvörðun án rökstudds mats. Í 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er tekið skýrt fram að Bankasýsla ríkisins skuli annast sölumeðferð eignarhluta fyrir hönd ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðherra, hún skal undirbúa sölu, leita tilboða í eignarhlut, meta tilboð, hafa umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð. Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim og ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt. Ráðherra tók ákvörðun þetta kvöld byggða á því mati sem Bankasýsla ríkisins hafði unnið málið eftir og skilað til ráðherra. Ráðherra tók afstöðu til þeirra gagna sem Bankasýsla ríkisins lagði fram þetta kvöld til ráðherra. Það liggur alveg ljóst fyrir og ráðherra bar að gera það.