Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:08]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Út í hvers konar skurð er stjórnmálamaður kominn þegar hann skundar alveg himinlifandi inn á þingið og lítur á það sem einhvern pólitískan sigur fyrir sig að varkár eftirlitsaðili noti ekki orðið lögbrot í svartri skýrslu sem fjallar um meiri háttar klúður við bankasölu sem ráðherra sjálfur ber óskoraða ábyrgð á? Ef viðmiðin hafa í alvörunni færst þangað, ef ríkisstjórn Íslands gerir ekki ríkari kröfur en þetta við sölu á tugmilljarða verðmætum ríkisins þá verður það bara að vera þannig. En ég er alveg viss um, hæstv. forseti, að fólkið í landinu kæri sig ekki um að svona sé farið með sameiginleg verðmæti okkar. Ég er líka sannfærður um að fólkið í landinu geri þá kröfu til okkar hér inni að við gerum upp þessa atburði undanbragðalaust.

Ég ætla að nota þessa ræðu til að velta fyrir mér starfsskyldum og ábyrgð fjármálaráðherra um söluna á Íslandsbanka. En fyrst ætla ég að leiðrétta og hrekja nokkur ummæli sem hæstv. ráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur sett fram á undanförnum dögum.

„Því er hvergi haldið fram í skýrslunni, ólíkt því sem margir hafa haldið fram í dag, að við höfum ekki verið að gera þetta eins og lög boðuðu“.

Þetta er rangt hjá Bjarna Benediktssyni, hæstv. fjármálaráðherra. Í úttekt ríkisendurskoðanda kemur skýrt fram að við Íslandsbankasöluna var ekki gætt nægilega að meginreglum laga um sölumeðferð á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, m.a. um gagnsæi, hlutlægni og jafnræði. Þar kemur líka fram að fyrirkomulag sölunnar var með þeim hætti að það var ómögulegt að tryggja fullt jafnræði. Drjúgur hluti úttektarinnar fjallar svo um hvernig eftirspurn var vanmetin, hvernig var kastað til hendinni við mat á rauneftirspurn og ríkisendurskoðandi bendir á að þetta kunni að hafa spillt fyrir hagkvæmni, einu af meginmarkmiðum laganna við söluna. Hér komum við að öðrum ummælum hæstv. fjármálaráðherra sem verður að leiðrétta, með leyfi forseta:

„… það segir ekkert annað í skýrslunni en að fjárhagslegra hagsmuna ríkisins hafi verið ágætlega gætt.“

Þetta er rangt. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir þvert á móti að eftirspurn eftir bréfunum hafi verið vanmetin svo rækilega að stjórnvöld kunni beinlínis að hafa skaðað hagsmuni ríkissjóðs. Það lágu einfaldlega ekki fyrir upplýsingar um það hver heildareftirspurn fjárfesta var þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin og ráðherra hirti ekki um að afla þessara upplýsinga þegar hann tók sína ákvörðun. „Rökstutt mat“ Bankasýslunnar innihélt engan rökstuðning fyrir ákvörðun lokaverðs eða hvernig ákvörðun um það hafði áhrif á samsetningu kaupendahópsins o.s.frv. Þetta segir í skýrslunni á bls. 60. Ráðherra tók sem sagt ákvörðun um sölu á tugmilljarða verðmætum í eigu ríkisins án þess að fá rökstuðning fyrir ákvörðun lokaverðs frá Bankasýslunni.

Stöldrum aðeins við þetta og rifjum upp hvað stendur í 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, með leyfi forseta:

„Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Þetta stendur í lögunum. Hvers vegna er mælt fyrir um það í lögunum að ráðherra taki við þessu rökstudda mati frá Bankasýslunni? Það skyldi þó ekki vera til þess einmitt að ráðherra geti lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni um að samþykkja eða hafna tilboðum? Til að hann geti mátað þessar grunnupplýsingar við sína eigin greinargerð sem hann skilar Alþingi skv. 2. gr. laganna? Til að hann geti mátað þær við meginreglurnar sem er kveðið á um í 3. gr. laganna og þau markmið sem koma fram í hans eigin greinargerð? Þetta er forsenda þess að ráðherra geti rækt skyldur sínar við sölu á banka. Eins og ríkisendurskoðandi bendir á þá ber ráðherra nefnilega ábyrgð á því, með leyfi forseta:

„… að söluferlið sé í samræmi við þær forsendur og þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar í greinargerð hans. Honum ber því að hafa eftirlit með söluferlinu og ganga úr skugga um að það hafi verið í samræmi við greinargerðina áður en hann tekur ákvörðun um sölu.“

Það gefur auðvitað augaleið að ráðherra getur ekki rækt þessar skyldur sínar nema með því að afla sér gagna og leggja mat á gögnin, framkvæma einhverja lágmarksrannsókn. Þetta sjá allir sem hafa einhvern lágmarksskilning á stjórnsýslurétti og ráðherra hefur líka heilt ráðuneyti á bak við sig til stuðnings í þessu. Þegar bankasalan var fyrst til umfjöllunar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd var okkur nefndarmönnum talin trú um að ráðherra yrði „upplýstur að fullu leyti um hverja sölu…“. Það segir orðrétt í minnisblaði Bankasýslunnar til ráðherra frá 20. janúar sl. að ráðherra verði:

„… upplýstur að fullu leyti um hverja sölu, enda þarf samþykki hans fyrir söluverði og sölumagni í hvert skipti sem eignarhlutir ríkisins í bankanum eru framseldir til annarra eiganda.“

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um það hvernig þingnefndum voru veittar misvísandi og villandi upplýsingar um það hvernig ætti að standa að sölunni. Það sem gerðist svo nokkrum vikum seinna er að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tók ákvörðun um söluna ekki aðeins án þess að búa yfir upplýsingum um tilboð og tilboðsgjafa heldur líka án þess að afla sér upplýsinga um það hvernig ákvörðun lokaverðsins væri rökstudd, án þess að afla sér upplýsinga um stöðu tilboðsbókar og án þess að afla sér upplýsinga um hvaða viðmiðum yrði beitt við skerðingu og úthlutun hlutabréfa og hvernig yrði gætt að jafnræði.

Nú liggur þetta bara mjög skýrt fyrir í skýrslunni. Ráðherra tók þessa risastóru ákvörðun um tugmilljarða hagsmuni skattgreiðenda með bundið fyrir augun án þess að taka við raunverulega rökstuddu mati frá Bankasýslunni. Þarna vakna mjög stórar spurningar um starfsskyldur og ábyrgð ráðherra. Voru vinnubrögð ráðherra í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins? Gætti ráðherra að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar hann samþykkti tilboð með lokuð augun án lágmarksrannsóknar? Rækti ráðherra eftirlitsskyldur sínar með viðunandi hætti gagnvart Bankasýslunni á öllum stigum þessa ferlis? Var ráðherra hæfur eða brast honum hæfi til að selja föður sínum eignarhlut? Átti hann ekki að leggja mat á hæfi sitt fyrir fram?

Þetta eru risastórar spurningar sem ríkisendurskoðandi tekur ekki fyrir í sinni úttekt, enda lýtur eftirlitshlutverk og starfssvið ríkisendurskoðanda einvörðungu að rekstri og fjárreiðum ríkisins, ekki að starfsskyldum og lagalegri ábyrgð ráðherra almennt eða t.d. hvort ráðherra fylgi stjórnsýslulögum og stjórnarráðslögum þegar meiri háttar ákvarðanir eru teknar. Mig grunar reyndar að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi einmitt verið mjög meðvitaður um þetta þegar hann beitti sér sérstaklega fyrir því að málið færi í þennan farveg hjá Ríkisendurskoðun, beitti sér þannig með óbeinum hætti fyrir því að málið yrði a.m.k. ekki strax tekið fyrir hjá umboðsmanni Alþingis eða af rannsóknarnefnd skipaðri samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir Alþingis. Höfum það alveg á hreinu að Ríkisendurskoðun er ekki einhver rannsóknarréttur. Ríkisendurskoðun er ekki dómstóll eins og hæstv. fjármálaráðherra virðist ætlast til af stofnuninni. Það er mjög mikilvægt að halda þessu til haga þegar hæstv. ráðherra reynir hér í nauðvörn sinni að halda því fram að skýrsla Ríkisendurskoðunar sé einhvers konar sýknudómur yfir hans eigin vinnubrögðum vegna þess að Ríkisendurskoðun notar ekki orðið lögbrot í skýrslunni. Það er náttúrlega ekki Ríkisendurskoðunar að skera úr um sekt eða sýknu þegar unnin er stjórnsýsluúttekt af þessum toga og ég held að allir hér inni átti sig á því.

Þessi góða skýrsla tekur á mjög afmörkuðum þáttum sem falla óumdeilanlega að eftirlitshlutverki og starfssviði Ríkisendurskoðunar, mér skilst reyndar að ríkisendurskoðandi hafi sérstaklega getið þess á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í gær að hann hefði þurft að gæta þess sérstaklega að fara ekki inn á svið sem fellur betur að eftirlitshlutverki umboðsmanns Alþingis, sem er ekkert skrýtið. En það sem við sjáum hérna, þótt skýrslan sé mjög afmörkuð og taki bara á þessum atriðum sem heyra óumdeilanlega undir lög um Ríkisendurskoðun, er að við söluna á Íslandsbanka var ekki gætt nægilega vel að meginreglum laganna um hagkvæmni, jafnræði og gagnsæi. Ráðherra átti að gæta að þessum atriðum eins og kemur fram í skýrslunni. Hann bar ábyrgð á því að hafa eftirlit og tryggja að þessi markmið næðust en hann hirti ekki um að afla viðeigandi upplýsinga heldur tók ákvörðunina með bundið fyrir augun. Það er algerlega óboðlegt.