Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:26]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágústi Bjarna Garðarssyni kærlega fyrir hans ræðu. Mig langar að koma inn á eitt atriði sem hann nefndi í sinni ræðu en það er tilboðsaðferðin sem hann segir að sé þekkt fyrirkomulag og þekkt erlendis, sem ég held að við vitum flest og gerum okkur vel grein fyrir. Þá langar mig að fá að vitna orðrétt í skýrslu ríkisendurskoðanda, með leyfi forseta:

„Fram kemur í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra vegna framhalds á sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka að tilboðsfyrirkomulagið sé langalgengasta aðferðin sem ráðandi hluthafar nýta sér við sölu á stórum hlutum í skráðum félögum á evrópskum hlutabréfamarkaði. Ríkisendurskoðun dregur þessa staðhæfingu ekki í efa og er meðvituð um þau dæmi þar sem tilboðsfyrirkomulaginu hefur verið beitt alþjóðlega við sölu á eignarhlutum ríkja í fjármálafyrirtækjum.“

Síðar segir í sömu skýrslu, með leyfi forseta:

„Tilboðsfyrirkomulagið ber, eðli málsins samkvæmt, rík einkenni starfshátta sem tíðkast á fjármálamarkaði en samrýmist að mati Ríkisendurskoðunar illa starfsháttum opinberrar stjórnsýslu.“

Því vil ég fá að spyrja félaga minn og hv. þingmann í efnahags- og viðskiptanefnd: Af hverju er þessi tvískinnungur í rökum Ríkisendurskoðunar, að þeir viðurkenna að tilboðsfyrirkomulaginu sé beitt alþjóðlega við sölu á eignarhlutum ríkja í fjármálafyrirtækjum en að það samrýmist illa starfsháttum opinberrar stjórnsýslu?