154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

viðbrögð við náttúruvá á Reykjanesi.

[14:01]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og upprifjunina á hinu sögulega. Ýmsir kollegar hv. þingmanns í akademíunni hafa sagt okkur að í jarðsögulegu tilliti getum við hugsanlega verið komin inn í mjög langt tímabil jarðhræringa, ef menn taka þá sögu með. Auðvitað veit það enginn og við þekkjum því miður náttúruvá hringinn í kringum landið. Ég býst við að þessi hópur hér í þessum sal hafi oft talað við kollega sína, erlenda vini og kunningja og útskýrt fyrir þeim hvernig okkur dettur í hug að búa hérna. Við höfum oft svarað því að það sé einfaldlega vegna þess að við búum okkur undir þetta eins vel og við getum og sýnum ákveðið umburðarlyndi gagnvart náttúruöflunum. Það sé alveg rétt að stundum taki náttúran í taumana, hvort sem það eru snjóflóð, aurflóð eða jarðskjálftar — sem eru nú víðar en á Suðurlandi eða á Reykjanesi, eldsumbrot eru líka víðar en á Íslandi — en við sættum okkur við að búa hérna og setjum okkur plön.

Í þessu skyni, vegna spurningar hv. þingmanns, var annars vegar settur af stað hópur sem hefur verið að skoða innviði sérstaklega á Reykjanesi. Líka hefur verið settur á laggirnar hópur sem hefur verið að kortleggja náttúruvá Reykjanesskagans og suðvesturhornsins. Sérstakt verkefni sem var hjá innviðaráðherra fyrir nokkrum árum og er ekki búið varðaði Hvassahraun og hugsanlega uppbyggingu flugvallar. Það varðaði líka náttúruvá þess svæðis, sem er þá hluti af þessari heildarskýrslu um náttúruvá á Reykjanesi. Mér er ekki kunnugt um hvar nákvæmlega sú vinna er stödd. Ég átti eiginlega von á að hún væri komin fram en væntanlega vegna (Forseti hringir.) alls konar uppákomu í náttúrunni hafa þeir vísindamenn sem unnið hafa að þessu verið uppteknir við fleira en eitt.