131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

30. mál
[16:50]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir áskorun síðasta ræðumanns til sitjandi forseta, hæstv. forseta Sólveigar Pétursdóttur, og bind vonir við breytingar þegar hún tekur við því þýðingarmikla starfi.

Mér hefur þótt þetta mjög góð umræða en ég tek undir að það er umhugsunarefni að enginn fulltrúi stjórnarflokkanna skuli taka þátt í umræðunni og ég velti því fyrir mér hvort það sé áhugaleysi um þróun þingstarfa og áhugaleysi um hvort hægt sé að viðhafa faglegri vinnubrögð og skapa nýjan og betri ramma um starf okkar eða hvort stjórnarliðið sé orðið svo bundið á klafa meirihlutaviðhorfsins að þeir treysti sér ekki til að koma í umræðu eða taka þátt í og hafa skoðun á óflokkspólitísku máli eins og starfsáætlun Alþingis er. Mér finnst það miður vegna þess að þetta er góð umræða og það er í gegnum umræðu af þessum toga sem breytingar geta orðið og samstaða um breytingar geta náðst.

Ég talaði um það í framsögu minni að þetta væri orðið úrelt starfsfyrirkomulag, við værum algjörlega úr takti við nágrannaþingin, að það væri mjög mikilvægt að skipuleggja störf okkar upp á nýtt, við yrðum að komast út úr álagstímanum á vorin og það væri slysahætta af honum í lagasetningu og allt of naumur tími fyrir mörg þau stórmál sem koma inn í þingið á vorin, og ég hef gert að umtalsefni fjarveru okkar í upp undir fimm mánuði á sumrin. En auk þess hafa komið fram mjög áhugaverð sjónarmið í umræðunni, virðulegi forseti, svo sem eins og að gera Alþingi að fjölskylduvænni vinnustað og að hægt væri með nýrri starfsáætlun að mæta nýjum fjölskyldukröfum sem unga fólkið er að setja fram. Búið er að benda á þýðingu eftirlitsskyldu Alþingis, að henni verði betur fullnægt og það er auðvitað undirstrikað varðandi eftirlitsskylduna að það er óþolandi að Alþingi sé af vettvangi í fimm mánuði á ári. Alþingi er löggjafarvald en jafnframt vettvangur þjóðmálaumræðu og þetta er ómissandi vettvangur sem lokast í fimm mánuði á ári. Alþingi á að bregðast við aðgerðum ríkisstjórnar og atburðum í þjóðfélaginu og það er ekki unnt í fimm mánuði á ári.

Allt sem hér hefur komið fram undirstrikar mjög mikið nauðsyn þess að skoða samkomudag Alþingis, skoða lengd vetrar, hugsa málin upp á nýtt, gera starfsáætlunina meira aðlaðandi, gera hana þannig að hún sé betri fyrir það fólk sem vinnur úti í stóru kjördæmunum, að hún sé betri fyrir fólkið í landinu og fjölskylduvænni fyrir það unga fólk sem kemur hér inn. — Ég þakka fyrir umræðuna.