132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[17:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að blanda mér aðeins í umræðuna. Ég vil byrja á að fagna því frumvarpi sem komið er fram og tel að það sé og verði örugglega til bóta gagnvart þeim vandamálum sem hafa verið uppi. Sú starfsemi sem verið er að setja lagaramma um gildir bæði um íslenska og erlenda menn. Til eru fyrirtæki hér á landi sem hafa rekið starfsemi af þessu tagi og ég held að full ástæða sé til að menn átti sig á að þetta fyrirkomulag er eitthvað sem við eigum eftir að sjá meira til framtíðar. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sem talaði síðast sagði að í fullkomnum heimi væru ekki starfsmannaleigur. Ég er ekki viss um að það sé alveg rétt. Ég vil draga athygli að því að starfsemi samkynja þeirri sem starfsmannaleigur reka hefur verið rekin á Íslandi svo lengi sem menn muna. Fyrirtæki á Íslandi hafa ævinlega leigt frá sér starfsmenn eða lánað öðrum fyrirtækjum og þar hafa þeir unnið undir verkstjórn þeirra manna sem eru á þeim stað.

Mig langar til að gera þetta aðeins að umtalsefni. Ég bind vonir við að frumvarpið verði fyrst og fremst til þess að hægt verði að passa upp á að þeir starfsmenn sem vinna hjá starfsmannaleigum séu ekki hlunnfarnir í launum eða félagslegum réttindum og að sá hluti málsins komist í viðunandi ástand. En hinu mega menn ekki gleyma að fyrirtækin á Íslandi vinna á þennan hátt að hluta til og hafa gert í gegnum tíðina. Þegar og ef — ég ætla sannarlega að vona að svo verði — næst utan um þessi réttindi á þann hátt sem hér er að stefnt hafa þeir sem vilja leigja frá sér vinnuafl um tvo kosti að velja. Annaðhvort að stofna starfsmannaleigu samkvæmt þessum lögum eða gera það hreinlega ekki. Þeir geta einfaldlega ráðið til sín starfsfólk á venjulegum uppsegjanlegum kjörum. Og ef þeir kjósa svo vegna þess að þeir telji að íþyngjandi ákvæði séu í lögunum þá munu þeir ekki sækjast eftir því að fá leyfi til að reka starfsmannaleigu heldur nota gömlu aðferðina eins og hún hefur verið notuð í gegnum tíðina.

Nefndin þarf að skoða þetta og velta fyrir sér hvort þurfi að setja ákveðin lög til að fylgjast með starfseminni sem þarna mun vissulega koma til. Það er meira en að segja það að setja lög á þann veg að öll útleiga starfsmanna með því fyrirkomulagi sem ég lýsti verði kölluð starfsmannaleiga og gera mönnum þá það að sækja eftir því að reka starfsmannaleigu ef þeir senda frá sér starfsmenn á þann hátt sem ég hef nefnt. Þetta tel ég að menn þurfi að hafa með í umræðunni í nefndinni. Ég lít á þetta fyrst og fremst sem áfanga til að sjá til þess að félagsleg réttindi og laun þeirra sem vinna hjá starfsmannaleigum eða á vegum þeirra verði tryggð. En þetta er ekki endanleg lausn á þessum málum. Vilji menn fylgjast með þeim sem er með starfsfólk í vinnu og leigir það frá sér með þeim hætti sem ég var að lýsa þurfa menn að skoða hvaða leiðir eigi að vera til þess.

Ég vildi leggja þetta til málanna en aðeins segja til viðbótar að sú þróun sem hefur orðið á undanförnum árum og sú þróun sem virðist mega sjá fyrir vegna erlends starfsfólks sem kemur í miklum mæli inn á íslenskan vinnumarkað er þróun sem menn þurfa virkilega að gefa gaum í landinu. Allt bendir til að slík þróun verði til þess að draga niður kjör á íslenskum vinnumarkaði. Ég hef mestar áhyggjur af að starfsmannaleigur og fyrirtæki, sem sanka að sér erlendum starfsmönnum til að setja inn á íslenska vinnumarkaðinn, muni verða til þess að draga niður kjörin. Hér er í boði mikið af erlendu starfsfólki með starfsþjálfun og jafnvel iðnmenntun og annað af því tagi sem það hefur fram að færa. Þetta fólk verði síðan leigt út á lágmarkskjörum sem verkafólk eða aðstoðarfólk í byggingariðnaði eða hvað svo sem það kann að heita. Kjör t.d. iðnaðarmanna eða annarra starfsstétta munu því einfaldlega rýrna vegna þess að í boði verður mikið af erlendu starfsfólki sem vantar vinnu og vill koma hingað og er tilbúið að vinna við það sem það hefur hlotið þjálfun til eða menntun í heimalandi sínu og þannig verði til undirboð sem í fljótu bragði virðast ekki vera ólögleg. Ekki er hægt að bregðast við þessu með lagasetningum að mínu viti. Hins vegar er hægt að bregðast við með því að koma á meiri sérhæfingu og sjá til þess að fólk fái starfsréttindi sem eru viðurkennd. Þannig geti verkalýðsfélögin síðan samið um kaup og kjör á grundvelli þeirrar menntunar og starfsréttinda og menn verði að virða það þegar þeir leigja frá sér starfsfólk, að þarna sé ekki á ferðinni — hvað á maður að kalla það — ef til vill rangar upplýsingar um hvað þessir starfsmenn hafa til brunns að bera og til hvers starfskraftar þeirra eru notaðir.

Ég nefni sem dæmi að einfalt er fyrir fyrirtæki í byggingariðnaði að flytja inn fólk með starfsþjálfun og jafnvel menntun í iðnaðarstörfum og borga því laun samkvæmt lægstu töxtum verkalýðsfélaganna en nota það sama starfsfólk í byggingariðnaði við fagvinnu. Þetta er að mínu viti einhver versta vá sem yfir verkalýðsfélögum í landinu hangir núna. Menn þurfa virkilega að velta því vandlega fyrir sér hvernig megi bregðast við þessu.

Ég vona að nefndin geti afgreitt þetta mál sem allra hraðast. Það verður að hafa það þó að menn finni kannski ekki lausn á því sem ég nefndi í umfjöllun um málið núna. En ég held að mjög gagnlegt sé fyrir nefndina að átta sig á því að ef þessi lagasetning verður á þann veg sem ég nefndi áðan munu atvinnurekendur, sem hafa áhuga á að bjóða upp á þjónustu af þessu tagi, hafa um tvo kosti að velja. Annar er sá að játast undir laun og starfsmannaleigur en hinn er að reka fyrirtæki á venjubundinn hátt á Íslandi og leigja frá sér starfsmennina eins og þeir hafa gert fram að þessu.