133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[14:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði áðan að það væri rangt að lítið hefði gerst í fjarskiptamálum. Það er að vissu leyti rétt, það hafa orðið tímamót í fjarskiptamálum, þau eru því miður bara niður á við, árangurinn er niður á við.

Það sem stefnt var til með einkavæðingu Símans og einkavæðingu raforkukerfisins hefur orðið neytendum til skaða. Það verður bara að segja hlutina eins og þeir eru. Við stöndum uppi með það að fólk á landsbyggðinni hefur skaðast af þessari stefnu. Það er ekki samkeppni á þessum mörkuðum, samkeppnin virkar ekki, þetta er fákeppni/tvíkeppni. Draumur ríkisstjórnarinnar um hraða einkavæðingu og aukna samkeppni hefur því miður snúist upp í martröð þeirra sem eiga að njóta. Það eru þeir sem bera skaðann af stefnunni og þurfa að greiða fyrir með hærra verði. Það er öðruvísi verðlag á landsbyggðinni en á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þar er slakari þjónusta og starfsstöðvar lagðar niður. Afleiðingin er sú að við erum verr stödd á þjónustusviðinu og það virðist stefna til þess að við verðum líka verr stödd varðandi verðlagningu, a.m.k. að því er landsbyggðina varðar. Þannig er það, hæstv. forseti.

Því er ómögulegt annað en að finna að þessari framkvæmd allri eins og hún hefur verið. Það væri sómi að því fyrir ríkisstjórnina að fara að viðurkenna það að einkavæðingarferlið sem átti að leiða til samkeppni hefur ekki tekist. Menn sitja bara uppi með skömmina af þeim verkum sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur.