133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:07]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi hugmynd um Ríkisendurskoðun er að koma upp fyrst núna á þessum fundi og ég hef ekki skoðað það sjálfur hvort ástæða er til að kalla út Ríkisendurskoðun til að skoða þessi fjármál. Ég held að hún hafi oft verið kölluð út af minna tilefni. Það má því vel vera að hún, eða einhver, sjái ástæðu til þess að hún skoði þetta mál sérstaklega. Við erum að tala um verulega miklu meiri kostnað en menn áttu von á og það má vel vera að það þurfi að skoða það nánar.

Varðandi það hvort ég sé sáttur við ráðherrann og ráðuneytið í þessu máli er ég ekki alveg viss um hvernig maður á að taka á því vegna þess að það er stofnunin sjálf sem leggur út í kostnað og það hefur komið í ljós að sá kostnaður var meiri en til stóð og við erum eiginlega sett í þá stöðu núna að þurfa að taka á málinu. Ég held að það sé alveg útilokað að hætta við hálfnað verk úti í miðri á, það er alveg útilokað þannig að við erum í hálfgerðri þröng að samþykkja þennan kostnað en ég geri það ekki með glöðu geði.