135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

269. mál
[15:09]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma með nokkrar örstuttar athugasemdir. Í fyrsta lagi vil ég láta þess getið að á fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar í Brussel fyrr í þessum mánuði kom þetta viðskiptakerfi með gróðurhúsalofttegundir til umfjöllunar og þar var samþykkt ályktun þar sem því var fagnað sérstaklega að nú stæði til að taka þessar tilskipanir upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Á fundinum var því jafnframt bætt inn í þessa ályktun að í framtíðinni, þegar frekari iðnaður eða önnur starfsemi verður felld undir viðskiptakerfið, muni þurfa að huga sérstaklega að jaðarsvæðum, eins og t.d. Íslandi, vegna þess að það standi til í framtíðinni, og það bendir reyndar allt til þess að það komi að því fyrr en síðar, að alþjóðlegt flug verði hluti af þessu viðskiptakerfi með gróðurhúsalofttegundir, getur reynt á sérstöðu Íslendinga sem eru sérstaklega háðir flugsamgöngum umfram flestar aðrar Evrópuþjóðir.

Ég verð að segja að mér finnst dálítið óþægilegt að taka ákvörðun um að fara inn í þetta kerfi vegna þess að þegar við göngum frá þessari þingsályktunartillögu í þinginu — ég er ekki í nokkrum vafa um að þingið mun afgreiða þetta mál, enda stöndum við í sjálfu sér ekki frammi fyrir neinu vali í þeim efnum eins og ég hef stundum minnst á áður á öðrum vettvangi — erum við að taka ákvörðun um ganga inn í viðskiptakerfi með gróðurhúsalofttegundir sem engin áhrif hefur á okkur í dag en kemur hugsanlega til með að hafa stórkostleg áhrif á okkur í framtíðinni vegna allrar þeirrar starfsemi sem síðar verður felld undir viðskiptakerfið. Þar er kannski, eins og ég hef áður nefnt, nærtækast að líta til flugsins, en það er ástæða til að ætla að líka verði horft til siglinga, bæði fragtsiglinga og jafnvel líka fiskveiðiflotans og þeirrar losunar sem hann veldur. Á þessari stundu er alveg óljóst hvernig það kerfi verður sem þá verður komið á fót, og við erum að undirgangast núna að verða bundin af, og hvernig það kemur við okkur. Mér finnst það dálítið óþægilegt.

Þetta mál á þess vegna líka að verða okkur áminning um hversu brýnt það er fyrir okkur að taka mál á Evrópuvettvangi fyrr til umfjöllunar í þinginu. Eins og fram kom í framsögu hæstv. utanríkisráðherra hefur þetta mál verið í vinnslu í allmörg ár en tiltölulega lítil ef nokkur umræða hefur farið fram um það á Alþingi.

Ég vil engu að síður nota þetta tækifæri til að fagna þeim undanþágum og þeim aðlögunum sem hafa fengist í þessu samningaferli fyrir þá íslensku starfsemi sem ella hefði þurft að lúta viðskiptakerfinu og ég efast ekki um að þar hefur verið teflt fram gildum rökum. Ég efast líka ekki um að það er skynsamlegt fyrir okkur að vera þátttakendur í þessu kerfi og stuðla þar með að því með aðild okkar að þær hugmyndir sem að baki viðskiptakerfinu liggja nái fram að ganga, þ.e. að hvetja fyrirtæki og ríki almennt til að stuðla að takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. En þrátt fyrir það er samt dálítið einkennilegt að vera í þeirri stöðu þegar málið kemur fyrir þingið að það sé í sjálfu sér búið að taka allar ákvarðanirnar og við höfum tiltölulega þröngan ramma til þess að ræða þetta hér.

Ég vil líka láta þess getið að skilningur minn er sá eftir fundinn sem ég var á og vitnaði til í Brussel fyrr í mánuðinum að það sé mikilvægt að þetta mál klárist fyrir áramót vegna þess að þar eru ákveðnar viðmiðunardagsetningar sem miða við 1. janúar næstkomandi. Hugmyndin er að frá 1. janúar 2008 geti aðildarríkin fellt nýja starfsemi og gróðurhúsalofttegundir reyndar undir gildissvið þessarar tilskipunar, það er allt háð samþykki framkvæmdastjórnar. Af samtölum mínum við fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar í Brussel skildi ég það svo að áríðandi væri að málið klárist fyrir áramót.

Við munum vinna hratt og örugglega að málinu í utanríkismálanefnd sem fær það til umfjöllunar og ég læt þess jafnframt getið að við munum gefa umhverfisnefnd þingsins tækifæri til að skoða málið samhliða þeirri skoðun sem fer fram hjá okkur.