137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Á mbl.is las ég áðan að íslensk stjórnvöld væru búin að ganga frá samningum við Norðurlöndin um lánveitingar til handa Íslandi upp á heila 318 milljarða kr. Við framsóknarmenn áttum orðræðu við hæstv. fjármálaráðherra á mánudag og þá sérstaklega um það hvaða vaxtakjör ættu að vera á þessu gríðarlega háa láni. Hæstv. ráðherra tilkynnti okkur þingmönnum þá hér á mánudaginn að við yrðum upplýstir um það nú í dag. En á mbl.is þar sem ég las þessa frétt er sérstaklega tekið fram að vaxtakjörin eru ekki gefin upp. Það er ekkert orðið óvanalegt fyrir okkur þingmenn að lesa um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum og þar birtist nú skýr vilji ríkisstjórnarinnar til samstarfs við Alþingi Íslendinga sem er í raun og veru ekki í takt við það sem þessi ríkisstjórn lofaði í aðdraganda síðustu kosninga þar sem talað var um opin og lýðræðisleg vinnubrögð. Þá var leyndarhjúpurinn fordæmdur, sérstaklega af hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni sem lofaði því á mánudaginn að við þingmenn og þjóðin mundum fá uppgefið hver kjörin á þessum gríðarlega háu lánum yrðu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðherra verður uppvís að því úr ræðustól Alþingis að segja okkur þingmönnum ekki satt og ég spyr því hv. þingmann, varaformann fjárlaganefndar, hvort hann hyggist beita sér fyrir því að opin og lýðræðisleg vinnubrögð verði viðhöfð í þessu máli og að við þingmenn fáum upplýsingar um hvaða vaxtakjör eru á þessum 318 milljörðum kr. Það skiptir miklu máli þegar við erum að tala um greiðslugetu þjóðarinnar til lengri tíma litið. Það þurfti að tosa upplýsingar um Icesave út úr ríkisstjórninni með mikilli hörku. Við þurfum greinilega líka að gera það í þessu máli og ég spyr því hv. þingmann hvort hann sé reiðubúinn að standa vörð um virðingu Alþingis með því að kalla eftir þessum upplýsingum.