138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

flugsamgöngur til Vestmannaeyja.

145. mál
[14:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég mundi gjarnan vilja fá meira en mínútu til að tjá mig um þessi svör hæstv. samgönguráðherra.

Núna er næstum því kominn desember og þegar menn þurfa að skipuleggja sig og eru að byggja upp atvinnugrein eins og ferðaþjónustuna, hefðu þessar upplýsingar náttúrlega átt að koma fram miklu, miklu fyrr. Eyjamenn börðust af mikilli hörku fyrir því að fá stuðning frá ráðuneytinu vegna flugsins. Þetta hefur skipt geysilega miklu máli og ferðaþjónustan hefur því miður ekki náð að þróast af jafnmiklum krafti þar og víðs vegar annars staðar, t.d. á Suðurlandi. Þó að við sjáum að þetta muni batna með Bakkafluginu hefur líka verið bent á að það liggur ekki enn þá fyrir verð fyrir ferðaþjónustuaðila til að selja, það liggur ekki fyrir áætlun og það liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um rútuferðir eða almenningssamgöngur (Forseti hringir.) frá Bakka. Vinnubrögðin hjá ráðuneytinu eru náttúrlega ráðuneytinu til mikils vansa og undirstofnunum líka.