138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

flugsamgöngur til Vestmannaeyja.

145. mál
[14:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að blanda sér í umræðuna og hefði verið gaman að fá að heyra meira frá henni en tíminn er knappur.

Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt upplýsir hann hér með að samið verði um flugið við Flugfélagið á sömu forsendum og gert hefur verið eða svipuðum forsendum fram til 1. ágúst á næsta ári. Það væri ágætt að fá það staðfest svo það sé algjörlega skýrt, þannig að þá geti flugþjónustuaðilar, ef það verður endanleg niðurstaða, farið að vinna eftir því og þeir sem sinna ferðaþjónustu þar. En ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé rétt stefna að skera á þetta með þessum hætti, á þennan knappa hátt, bæði vegna þess hvernig haldið hefur verið á málinu af hálfu ráðuneytisins varðandi það að undirbúa þessa breytingu, þessa miklu samgöngubyltingu í rauninni sem þetta verður fyrir Eyjar, og að það sé einfaldlega of langt liðið á undirbúningstímann fyrir næsta sumar til að hægt sé að gera þetta með þessum hætti. Ég vil leyfa mér að halda því fram.

Ég vildi því fá aðeins skýrar frá ráðherranum af því að ég skildi hann svo að hann væri sammála mér að draumurinn væri sá að flug til Eyja væri sjálfbært, það er draumur okkar beggja, svo maður vitni í Stuðmenn. Verðum við ekki að líta svo á að það sé skylda okkar að gera umhverfið og vinnuaðstæðurnar þannig að þeim fyrirtækjum sem þarna starfa og þá ferðaþjónustuaðilunum sérstaklega sé búin sú umgjörð að þeir geti haldið áfram og verða þeir ekki að fá eitthvert aðlögunartímabil? Er ekki einfaldlega eðlilegt að svo sé?

Mig langar jafnframt að spyrja ráðherrann að því hvers vegna það hefur dregist svo að ganga frá þessu samkomulagi við Flugfélagið vegna þess að nú eru bara tæpar sex vikur í áramótin og það hlýtur að hafa verið knúið á dyrnar hjá ráðuneytinu fyrir löngu varðandi þetta mál. (Forseti hringir.) Það væri ágætt að fá upplýsingar um hvernig ferlið á því hefur verið í ráðuneytinu.