138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

fækkun héraðsdómstóla.

188. mál
[19:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Enn ræðum við dómsmálin og þrátt fyrir að hér hafi komið ákveðin gagnrýni á að við séum að gera það er full ástæða til þess að mínu viti og mun ég því eðlilega halda því áfram.

Ég er með fyrirspurn í tveimur liðum. Sá fyrri er svohljóðandi, með leyfi frú forseta:

Ef héraðsdómstólum verður fækkað, verður þá áfram gert ráð fyrir þinghaldi á þeim stöðum þar sem þeir verða aflagðir? Ef svo er, hver er áætlaður kostnaður við það?

Nú hefur hæstv. ráðherra svarað því að ekki sé endilega gert ráð fyrir því að þeim verði fækkað og ég veit svo sem ekki hvort það kemur þá svar við seinni hluta spurningarinnar varðandi kostnaðinn, en það hlýtur að vera augljóst ef ætlunin er að halda áfram þinghaldi að þá fylgi því einhver kostnaður og hann hlýtur að þurfa að liggja fyrir.

Annar liður fyrirspurnarinnar er svohljóðandi, með leyfi frú forseta:

Verði af fækkun héraðsdómstóla, hyggst ráðherra þá beita sér fyrir endurgreiðslu á kostnaði til þeirra sem þurfa að sækja þjónustu dómstólanna um langan veg, svo sem ferðakostnaði, uppihaldi og þess háttar?

Það er nefnilega þannig að víða á landsbyggðinni, eins og ég geri ráð fyrir að flestir þingmenn þekki, er um langan veg að fara og langt að sækja t.d. þessa þjónustu. Á sumum stöðum eru haldin dómþing eða er aðstaða til þess að dómarar geti komið á staðinn og veitt þá þjónustu sem þarf. Það er til þess m.a. að veita góða þjónustu og gera íbúum og þeim sem þurfa að mæta fyrir dómara kleift að nálgast hana sem næst sinni heimabyggð.

Þetta er mjög mikilvægt því að það er mikill kostnaður sem fylgir því að sækja þjónustu um langan veg og þetta er einn hluti af því. Það má bæta inn í þetta að sá kostnaður mun aukast á næstu árum miðað við þær skattbreytingar sem boðaðar eru og þá er ljóst að ferðakostnaður mun aukast töluvert mikið hjá þeim sem þurfa að fara um langan veg. Því tel ég eðlilegt að spyrja að því, verði dregið úr þessari þjónustu, og velta því upp hvort þeir sem þurfa að fara um langan veg fái það bætt með einhverjum hætti, því að öll viljum við væntanlega sitja sem mest við sama borð, a.m.k. hefur það komið fram í yfirlýsingum þeirra hæstv. ríkisstjórnar sem situr nú. Því langar mig að bera upp þessar tvær spurningar, annars vegar um það að verði héraðsdómstólum mögulega fækkað, hvort þá liggi eitthvað fyrir með þinghald á þeim stöðum, og hins vegar um það hvort ferðakostnaður, uppihald og allt sem því fylgir verði bætt með einhverjum hætti, komi til þess að þeir verði lagðir af.