140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

staða framhaldsskólanna.

[15:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál hér í þingsal. Það liggur fyrir að staða framhaldsskólanna er þröng. Þó að forgangsraðað hafi verið í fjárveitingum með þeim hætti að þeir hafa orðið fyrir minni niðurskurði en aðrar stofnanir, og fylgt þar í raun og veru velferðarstofnunum og heilbrigðisstofnunum, hefur að sjálfsögðu verið skorið þar niður. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega hafði líka þegar verið hagrætt mjög í starfi framhaldsskólanna þegar hrunið varð og efnahagsástandið versnaði og það hefur gert stöðuna enn þyngri.

Ég vil þó benda á það sem hefur vel gengið. Ég minni á að við fórum á þessu ári af stað með átakið Nám er vinnandi vegur, sem var unnið í mikilli samvinnu við hagsmunaaðila, skólafólk og við alla flokka, enda er þetta að ég held einmitt einn af þeim málaflokkum sem við getum sameinast um.

Unnið hefur verið að því að fjölga námstækifærum í framhaldsskólum og styðja við aðgerðir gegn brotthvarfi. Og af því að hv. þingmaður spyr um stuðningsnetið þá hafa, í tengslum við átakið, verið veittar um 60 millj. kr. til að efla náms- og starfsráðgjöf í framhaldsskólum. Sú fjárveiting heldur áfram til ársins 2014. Við höfum ráðið sérstakan náms- og starfsráðgjafa til að hafa umsjón með eflingu þessa verkefnis í framhaldsskólum og koma á fót samstarfsneti milli þeirra. Við erum líka með sérstaka vöktun á því hvernig þeim vegnar sem innrituðust nú í haust.

Enn fremur hefur töluvert fjármagn verið veitt í vinnustaðanámssjóð eða 150 millj. kr. á ári, og í eflingu starfsmenntunar sem mun gera kleift að styðja við nám á vinnustöðum og auka framboð á starfsnámi. Heildaráætlunin gerir ráð fyrir um 7 milljörðum í menntakerfið á næstu þremur árum.

Samhliða þessu höfum við hafið samstarf við OECD um mótun aðgerða til að draga úr brottfalli í framhaldsskólum. Rétt er að benda á að við höfum ákveðnar vísbendingar um að dregið hafi úr brottfalli undanfarin ár. Líklega tengist það einfaldlega verra atvinnuástandi, þ.e. það er erfiðara að ganga í störf á vinnumarkaðinum og nemendur sækja því skólann. Það þýðir samt ekki að við þurfum ekki að vinna í þessum málum því að hið mikla brottfall úr framhaldsskólum er eitt af því sem við stöndum verr í en aðrar Norðurlandaþjóðir. Við héldum málþing um þetta efni í nóvember og ætlum núna að vinna að stefnumótun á þessu sviði í samráði við hagsmunaaðila. Ég held að þetta sé eitt brýnasta verkefnið í framhaldsskólunum. Við þurfum að horfa heildstætt á málið og skoða hvað gerist á unglingastigi því að árangur nemenda á unglingastigi hefur ákveðið forspárgildi um hvað mun gerast í framhaldsskólum. Þess vegna skiptir máli að sveitarfélögin og kennarasamtökin komi að þeirri vinnu með okkur.

Hins vegar liggur líka fyrir að aðstæður í framhaldsskólum hafa verið þröngar. Við höfum forgangsraðað, við höfum tryggt öllum nemendum yngri en 18 ára pláss í skólunum eins og lög gera ráð fyrir, og ég vísa þar í lög um fræðsluskylduna, og við höfum líka forgangsraðað í þágu fatlaðra nemenda til að tryggja þeim nám við hæfi. Með átakinu Nám er vinnandi vegur sem ég nefndi áðan, hefur fengist fjármagn til að veita öllum nemendum yngri en 25 ára aðgang að framhaldsskólum. Við getum hins vegar velt því fyrir okkur hvaða áhrif þetta hefur á skólana. Þar er mikið álag, fjárveitingar hafa almennt dregist saman og við sjáum hugsanlega líka að átakið hefur mismunandi áhrif á ólíka framhaldsskóla, þ.e. þeir koma ekki allir eins út úr átakinu. Að því þurfum við að huga núna.

Hv. þingmaður nefndi að skólar á suðvesturhorninu væru í raun og veru sprungnir vegna nemendafjölda og við þurfum að meta það núna. Verið er að fara yfir fjárhagsáætlanir allra skólanna og staða þeirra er mismunandi. Það snýr ekki bara að því hverjir áttu afgang frá fyrri árum heldur líka hverjir fá mesta innspýtingu í gegnum þetta átak. Þetta þarf því að meta.

Hvað varðar þróunarstarf og innleiðingu er hárrétt að við lengdum innleiðingartímann. Ég stend við það að ég tel að það hafi verið það eina sem hægt var að gera í stöðunni í ljósi þess að innleiðingunni áttu að fylgja 2 milljarðar kr., á sama tíma og við vorum að taka 2 milljarða út úr kerfinu. Mér fannst því ekki vegur að halda innleiðingunni áfram af fullum krafti. Við lengdum því innleiðingartímann til 2015 og skólarnir hafa meira svigrúm. Ég vil hins vegar segja það að skólarnir vinna gríðarlega gott starf við innleiðingu nýrrar námskrár. Til að mynda var farið af stað með nýja námsbraut í haust í samstarfi Myndlistaskólans í Reykjavík og Kvennaskólans sem miðar að þriggja ára stúdentsprófi og kallast sjónlistabraut. Þetta voru einmitt þau tækifæri sem fólk vildi sjá í nýju lögunum, þ.e. fjölbreyttara námsframboð. Víða sjáum við fjölbreyttari námsbrautir í hönnun hjá skólunum og þeir eru því svo sannarlega að nýta sér þetta umhverfi. Samhliða þessu hefur verið skipuð nefnd sem á að skila tillögum um starf og vinnutíma framhaldsskólakennara og (Forseti hringir.) á að skila niðurstöðum snemma á næsta ári.

Ég gæti haldið áfram lengi enn en þakka fyrir umræðuna og fæ að koma fleiru að hér á eftir.