141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Bjarna Benediktssonar að í sjálfu sér er ekkert við það að athuga að fram fari slík rannsókn eins og hér er boðuð. Í sjálfu sér má segja að það sé nauðsynlegt, vegna þeirra stóru orða sem svo gjarnan eru höfð uppi, að slík rannsókn fari fram.

Ég vil benda á, og það ætti að flýta fyrir þessari rannsókn, að Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum unnið fjölmargar skýrslur, greinargerðir, samantektir og álit um þær spurningar sem hafa verið einna hæst uppi. Það ætti að flýta fyrir vinnunni og hjálpa nefndinni til að skila sínu áliti hratt. Það er mikilvægt að það sé gert vegna þess að, eins og fram kom í máli hv. þm. Skúla Helgasonar hvað varðar leiðsögn frá Alþingi Íslendinga varðandi sölu á hlut ríkisins í bönkum, að í fjárlagafrumvarpinu er heimild fyrir því að selja banka, að selja hluti ríkisins í bönkunum. Og hvaða leiðsögn liggur fyrir af hálfu þingsins varðandi þá sölu? Það væri þá óskandi að það tækist að fá niðurstöðu þessa eins hratt eins og mögulegt er þannig að hún geti verið gagn í þá umræðu þegar kemur að þeirri sölu.