143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forseta út í hans eigin orð og hvernig honum lítist á framkvæmdina varðandi það að mál kæmu fyrr inn í þingið þannig að það fengi góðan tíma til að afgreiða þau. Þetta var fyrsta ræða hæstv. forseta á þessu þingi þegar hann var kosinn. Mig langar aðeins að heyra hvernig honum líst á þegar menn fá inn fjáraukalög þannig að við megum eiga von á því að þetta verði afgreitt og keyrt í gegnum nefndirnar inn í þingið og við verðum látin greiða atkvæði eins fljótt og vel og hægt er og beðist undan afgreiðslu.

Við erum ekkert að þvælast fyrir málum. Við afgreiðum hér mál með afbrigðum án mótatkvæða. Við samþykkjum mál samhljóða úr nefndum. Það er sem betur fer ekki kominn nema helmingurinn af því sem þessi ríkisstjórn ætlaði að koma með á haustþinginu þannig að það er rýmri tími, en það eru engin smámál ef við eigum von á — sem við höfum ekki hugmynd um — málum út af skuldaleiðréttingum sem við viljum auðvitað hafa eðlilegan framgang með og viljum styðja ef mögulegt er. Við viljum þá fyrst fá að vita hver þau eru og um hvað þau snúast. Mér finnst þetta skipta meginmáli þegar við erum að ræða um þessa (Forseti hringir.) stöðu og þá daga sem eftir eru. Það er enginn að skirrast við að vinna hér fram til 20. eða 22. desember. Er það ætlunin? (Forseti hringir.) Þá þurfum við bara að vita það.