143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

þingstörfin fram undan.

[15:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, eins og staðan er núna þarf að funda gríðarlega mikið og kannski fram á kvöld, á þeim tíma þegar þingfundir eiga sér stað, í fjárlaganefnd. Þá er spurningin: Hvort á að hafa forgang, fagleg vinnubrögð eða starfsáætlunin? Ég held að það hljóti að vera fagleg vinnubrögð sem við setjum í forgang þó að við þurfum að starfa fram að aðfangadegi. Það eru margar starfsstéttir í þessu landi sem þurfa að vinna á aðfangadag. (Gripið fram í: Þetta snýst ekki um það.) Eins og þingmaðurinn segir snýst þetta ekki um það. Þar komum við að hinni hliðinni á þessu öllu saman, því að greinilega hefur ekki verið haldið nógu vel á spöðunum, það hefur ekki verið nógu góð verkstjórn í fjárlaganefnd til að tryggja það að það sé nægur tími án þess að hafa kvöld- og næturfundi sem eru ekki nógu góður fundartími til að taka svona mikilvægar ákvarðanir.

Castro vissi að með því að halda fundi á næturnar fengi (Forseti hringir.) hann helst sitt fram. Það hefur ekki verið haldið nógu vel á spöðunum. (Forseti hringir.) En staðan er sú að ég mundi segja að starfsáætlunin ætti að víkja fyrir faglegum vinnubrögðum.