143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

þingstörfin fram undan.

[15:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það fer að verða nokkuð skýrt hvað hér er til umræðu. Spurningin er: Stendur til að halda starfsáætlun? Það er spurningin sem við horfumst hér í augu við. Hver er staða starfsáætlunar þingsins, virðulegur forseti? Er þetta bara hugmyndaplagg? Er þetta einhvers konar útgangspunktur eða eða hefur þessi pappír einhverja stöðu?

Ég geri mér grein fyrir því að við höfum rætt um nefndarfundina og nefndadagana og komist að tiltekinni niðurstöðu á fundi þingflokksformanna. Það hversu örugg starfsáætlun þingsins er var hins vegar ekki rætt á þessum þingflokksformannafundi og hvort menn sæju fyrir sér að funda fram að áramótum. Mér fyndist bara ágætt ef forseti þingsins vildi gera okkur þann greiða að gera þinginu grein fyrir því án þess að við förum að flækja það með meintum brigslum um að menn séu mislatir eða misduglegir til vinnu í þinginu sem ég held að sé ekki vandamál. Ég hef ekki orðið vör við annað en að menn gengju hér glaðir til starfa dag eftir dag óháð því hvernig verkefnin eru og hvernig þau leggjast.