144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í byrjun benda hv. þingmanni Pírata, sem tók til máls hér áðan, á að það verða þrjár klukkustundir veittar hér á eftir til að ræða mál málanna sem er skuldaleiðréttingin. Það hlýtur að duga fyrir hann, er það ekki? (Gripið fram í.)

Annars ber ég virðingu fyrir stjórnmálaflokkum sem standa fastir á sannfæringu sinni. Þess vegna ber ég ómælda virðingu fyrir Samfylkingunni og Vinstri grænum. Þetta eru flokkar sem standa fastir á prinsippum sínum. Ég nefni það vegna þess að fyrir réttum fjórum árum sagði Jóhanna Sigurðardóttir að meira yrði ekki gert fyrir heimili landsins. Alla tíð síðan hefur Samfylkingin og Vinstri grænir haldið fast í þessa sannfæringu. Skjaldborg heimilanna snerist um að koma til móts við 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir. 30% þeirrar upphæðar sem sett var í 110%-leiðina fór til heimila með meira en 10 millj. kr. í árslaun. 775 heimili fengu helming allrar leiðréttingarinnar eða 20 milljarða kr. Þetta var skjaldborgin. Um þessa fyrrverandi stjórnarflokka má bara segja eitt: Vont er þeirra ranglæti, verra er þeirra réttlæti.

Ólafur Arnarson hagfræðingur hefur kallað leiðréttingu núverandi stjórnar móralska viðurkenningu á því að Íslendingar séu ekki óreiðufólk upp til hópa heldur hafi stór hluti þjóðarinnar orðið fyrir forsendubresti vegna þeirra sem áttu að passa upp á hlutina en gerðu það ekki. Samkvæmt Ólafi er leiðréttingin fyrst og fremst siðferðilegt atriði, réttlætismál. Ég er sammála honum. Það var óverjandi að dæla milljörðum til lítils hóps skuldara eins og síðasta ríkisstjórn gerði. Það var ekki Íslandsmet í óréttlæti heldur heimsmet.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í gær að verið væri að gefa þeim tekjuhæstu núna heila Hörpu að gjöf. Það er ekkert miðað við það „Titanic“ sem síðasta ríkisstjórn gaf fáum völdum einstaklingum.