144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég er hingað komin til að lýsa ánægju minni yfir því að skuldaaðgerðir ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi náð fram að ganga. Þetta tekst ríkisstjórninni aðeins einu og hálfu ári eftir að hún tekur við völdum hér á landi. Það er líka sérstaklega ánægjulegt að ríkisstjórninni hafi tekist þetta verk vegna þess að það var ákveðinn hópur fólks, sérstaklega í stjórnarandstöðu, sem trúði því ekki að okkur tækist þetta.

Það er svo að 91 þús. einstaklingar fá leiðréttingu á skuldamálum sínum í gegnum beina niðurfellingu. Meðaltal einstaklinga er 1.350 þús. kr. og hjá hjónum 1.510 þús. kr. Það hefur komið fram í skýrslum er fylgja leiðréttingunni að vegna aðgerðanna munu ráðstöfunartekjur heimila aukast um um það bil 17% eða um 130 til 220 þús. kr. á árunum 2015–2017. Einnig munu vaxtagjöld og afborganir heimila lækka um 22% fram til ársins 2017. Jafnframt mun eiginfjárstaða 54 þús. heimila, það er rúmlega 91 þús. einstaklinga, styrkjast með beinum hætti. 4 þús. aðilar munu færast úr því að eiga minna en ekki neitt yfir í að eiga jákvætt fé í fasteignum sínum. Einstaklingur með 330 þús. kr. á mánuði og hjón þar sem hvort fyrir sig hefur 450 þús. kr. í mánaðarlaun er tíðasta gildið í leiðréttingunni en meðalheildarlaun á Íslandi, samkvæmt Hagstofu Íslands, eru 520 þús. kr. á mánuði.

Ég er afskaplega ánægð að bankaskattur sé notaður til að fjármagna beina niðurfellingu. Það var kominn tími til að þær stofnanir sem fóru ógætilega á hrunárunum borguðu heimilunum hluta til baka.