149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað. Það er algjörlega ólíðandi að hv. þingmenn þurfi að bíða svona óskaplega lengi eftir svörum við spurningum sem skipta máli fyrir þingstörfin á einn eða annan hátt.

Þetta er ekki í eina skiptið sem slíkt hefur gerst, þótt hér séu ansi margir mánuðir undir. Ég fékk t.d. um mitt sumar, nánar tiltekið 18. júlí, eftir að hafa beðið í um fimm mánuði, svar við spurningum til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um vinnslu úr Panama-skjölunum.

Það væri líka ágætt að við skoðuðum hvaða mál það eru sérstaklega sem hæstv. ráðherrar draga að svara. Eru það viðkvæm mál? Við eigum jafn mikinn rétt á því að fá skýr og (Forseti hringir.) greinargóð svör við viðkvæmum málum sem öðrum.