149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

efnahagslegar forsendur fjárlaga.

[15:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Þetta mál er í sjálfu sér mjög einfalt. Efnahagslegar forsendur fjárlaga og fjármálaáætlunar þessarar ríkisstjórnar eru brostnar. Það þarf ekkert að koma neitt sérstaklega á óvart, það var ítrekað varað við því í bæði umræðu um fjármálaáætlun og 1. umr. þessara fjárlaga, að efnahagslegar forsendur væru í besta falli mjög bjartsýnar.

Nú kemur Hagstofan, sem þó er áfram mjög bjartsýn, með hagspá en endurmetnar forsendur og ríkisstjórnin þarf að bregðast við af því að þetta hafði jú þau áhrif að kostnaður jókst um 4 milljarða og tekjur minnkuðu um 2 milljarða. Þetta var 6 milljarða gat sem þurfti að loka á milli umræðna. Hvað var gert? Það var skorið niður í velferðarkerfinu, að sjálfsögðu, eins og alltaf, og síðan til að loka gatinu var endanlega skorið niður í opinberum framkvæmdum.

Þetta er hin klassíska uppskrift ríkisfjármálanna, að skera niður í velferðarkerfinu og skera niður í opinberum framkvæmdum, þegar herðir að í ríkisfjármálum. Ekki minnsta tilraun gerð til að reyna að hagræða almennt í ríkisrekstri þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir um að forsendurnar væru of bjartsýnar, að loforðin sem væri verið að veita inn í velferðarkerfið gætu ekki staðist til lengdar út af þessum bjartsýnu forsendum.

Það er ágætt að hafa í huga í því samhengi að forsendur eru áfram mjög bjartsýnar. Hagstofan gerir ráð fyrir 3,6% verðbólgu á næsta ári miðað við að gengið verði umtalsvert sterkara en það er í dag. Það hefur veikst frá að þessi hagspá var gefin út. Að óbreyttu eru horfur á 6–8% verðbólgu á næsta ári. Það er veruleikinn. Ofan í það ætlar ríkisstjórnin að hækka bætur eldri borgara og örorkulífeyrisþega um 3,6%. Það er staðreyndin, það er kjararýrnun sem sá hópur stendur frammi fyrir. Það þýðir ekkert að slá sér á brjóst og hæla sér af því að kerfið var endurskoðað 2016 og veruleg bragarbót gerð á því. Staðreyndin er sú að frá 2016 og með áætlun næsta árs eru horfur á því að launavísitala hækki um 20% en bætur eldri borgara og örorkulífeyrisþega um 8%. Þetta er hin hefðbundna uppskrift ríkisins að kerfisbundinni kjaraskerðingu eldri borgara og örorkulífeyrisþega.