149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

tekjuskattur.

335. mál
[16:08]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Þær aðstæður eru uppi í íslensku samfélagi að ýmsir hópar búa við örðug kjör. Það er þannig um þessar bætur eða uppbætur á lífeyri, sem eru ákveðnar með 9. gr. laga um félagslega aðstoð, að það hefur svo sannarlega stungið í augu að þær bætur sem eru að sumu leyti og kannski að mestu leyti endurgreiðsla á útlögðum kostnaði, skuli hafa verið taldar til skattskyldra tekna. Skemmst er frá að segja, eins og hér hefur verið rifjað upp áður, að um þetta tókst mjög víðtæk samstaða allra þingflokka á Alþingi í vor, eða í sumar, og við erum komin þangað að vera með þetta stjórnarfrumvarp með fjármálaráðherra að baki málinu, sem er auðvitað mjög ánægjulegt og ágætt.

Hér er um það að ræða að í raun og sanni má líta þannig á, leyfi ég mér að segja, að menn hafi sannfærst um að hér væri uppi réttlætismál og að það verðskuldi afgreiðslu sem slíkt. Það má vel taka undir þau sjónarmið sem ráðherra hefur teflt fram að það sé þess virði að líta til samræmis og hafa heildarsýn á málin. Það getur vel farið svo og væri náttúrlega ákjósanlegt að í þeirri heildarendurskoðun á því réttindakerfi sem umlykur þá aðila sem eiga hagsmuna að gæta að það verði að sérstöku sjónarmiði. En meðan það hefur ekki verið gert ber auðvitað brýna nauðsyn til þess að frumvarpið fái greiða leið í gegnum hv. Alþingi.

Ég skal ekki hafa miklu fleiri orð um þetta annað en að ítreka hversu ánægður ég er með að frumvarpið er komið fram. Mjög gagnlegar upplýsingar er að finna í greinargerðinni. Það er því auðvelt fyrir hvern þann sem kemur til með að fjalla um þetta að átta sig á málinu sem er í raun og sanni afar einfalt réttlætismál, herra forseti.

Ég ítreka vonir mínar um að það takist að lögfesta þetta þannig, eins og mælt er fyrir um í 2. gr. frumvarpsins, að lög þessi öðlist gildi. 1. janúar 2019.