149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

tekjuskattur.

335. mál
[16:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er kominn hingað upp til að fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Fyrsta frumvarp sem ég lagði fram á þingi fyrir ári síðan var um að hætta að skatta uppbætur á lífeyri. Sem varð síðan að þingsályktunartillögu sem var samþykkt einróma í vor og er núna orðin að þessu frumvarpi. Ég fagna því mjög.

Ég vonaði svo heitt og innilega að það væri góðlátlegur vírus í frumvarpinu sem myndi smitast út í allar áttir. Þess vegna varð maður auðvitað fyrir gífurlegum vonbrigðum þegar maður varð var við, innan sólarhrings eftir að þetta frumvarp kom fram, að það ætti að fara að skerða um rúman milljarð hjá öryrkjum.

En fyrir þá öryrkja sem hafa verið í þessum sporum — og ég þekki það sjálfur af eigin raun — að trúa því að fá einhverjar uppbætur, að trúa því að verið sé að styrkja þá til að kaupa lyf, hjálpartæki eða fá bensínstyrk svokallaðan, eða styrk til reksturs bifreiðar, sem er mjög dýrt, og fyrir þá sem eru fatlaðir og þurfa stóra bíla, er þetta mikill kostnaður. Það sem er eiginlega sorglegast í þessu þegar ég fór að rýna í þetta er að þetta var ekki skert og skattað krónu á móti krónu algerlega í 0, eins og kemur fram aftast í frumvarpinu, og það segir okkur hversu flókið þetta var. Þar stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Þá hækka greiðslur barnabóta og vaxtabóta lítillega verði frumvarpið að lögum, eða kringum 5 millj. kr.“

Það er ekki hægt að reikna þetta nákvæmlega út. Og þetta segir okkur að eftir að búið var að taka hverja einustu krónu af þessum styrkjum var það samt enn inni á skattframtali viðkomandi, eins og hann hefði fengið allt, en fékk aldrei.

Það varð til þess að lækka barnabætur og vaxtabætur.

Svona gildrur, ég trúi ekki öðru en að um mistök hafi verið að ræða þegar þær fóru inn. En mér finnst það enn alvarlegra mál ef þær fara ekki út þegar við áttum okkur á því að þær skaða frekar en bæta.

Þess vegna er ég rosalega ánægður með það núna. Við verðum að átta okkur líka á því í þessu samhengi hverju þetta skilar. Fyrir venjulegt fólk sem fær ekki þessa styrki, það áttar sig ekki á hvað sé í gangi. Eins og hæstv. fjármálaráðherra talaði um áðan, að þetta hefði áhrif, þ.e. á tekjuskatt og útsvar sem skilaði aðallega til viðkomandi. En líka hitt, skerðingarnar sem þetta hefði haft í för með sér áður. Einstaklingur er ekki bara að fá tekjuskattinn eða 15 þús. kr. bifreiðastyrk, sem er upp á tæpar 4–5 þús. kr., heldur er hann að fá allar 15 þús. krónurnar í vasann. Plús líka það sem áður var skert ef hann var með vaxtabætur eða barnabætur.

Á mannamáli þýðir þetta einfaldlega, við skulum segja að einhver hafi fengið lyfjastyrk. Það er auðvitað mismunandi hvað menn fá og hversu mikinn lyfjastyrk fólk er með. Einstaklingur sem fær 10 þús. kr. lyfjastyrk, hann var skattaður áður. Undir þessum lið hjá Tryggingastofnun ríkisins er allt skattað, allar tekjur og allir skattskyldir tekjustofnar. Þegar þetta er komið út skilar það þeim einstaklingi sem áður fékk ekkert, 10.000 kr.

Síðan fær þessi sami einstaklingur, sem í mörgum tilfellum er líka með bifreiðastyrk, 14.387 kr. í viðbót. Þarna er um að ræða að einstaklingur fær til baka, þeir sem eru verst staddir í þjóðfélaginu, allt upp í 25 þús. kr. Við gerum okkur þá í leiðinni grein fyrir því hversu ótrúlegt það var fyrir þá einstaklinga sem fá kannski 205 þús. fengu í rauninni ekki nema 180 þús., jafnvel minna.

Ég hefði viljað að þetta virkaði ár aftur í tímann og fólk fengi það sem eina greiðslu, helst 1. desember, fyrir jól. En þetta kemur til framkvæmda og á að gera 1. janúar. Þess vegna sýnir þetta okkur að ég held að við eigum að taka frumvarpið og grandskoða það og nota í hina vinnuna. Því að það eru enn inni fullt af gildrum. Ein sem við ættum að taka á næst er t.d. séreignarsparnaðurinn. Til hvers söfnum við honum? Jú, til þess að eiga í ellinni. Eiga uppsafnaðan sjóð sem við getum notað okkur til framfærslu þegar við förum á eftirlaun. En við erum alltaf að hvetja öryrkja til að vinna. Þess vegna er það að þegar fólk er komið yfir sextugt og má fara að taka út séreignarsparnað, þá skerðist hann. Hann er skattskyldur og skerðist krónu á móti krónu.

Þess vegna segi ég fyrir mitt leyti að ég get ekki sætt mig við að þessir 4 milljarðar sem áttu að minnka um þriðjung krónu á móti krónu skerðinguna eru komnir í 2,9. Það vantar þarna rúmlega tvo þriðju.

Ef við viljum halda áfram á þeirri braut sem er mörkuð í frumvarpinu og marka þá stefnu hefði ríkisstjórnin — ef hún sýnir og hefur vilja til að afnema krónu á móti krónu skerðingar ætti hún að gera það strax. Það á ekki að nota eitthvað svona sem refsivönd til að fá eitthvað fram sem heitir starfsgetumat heldur eigum við að horfa á þetta sem jákvætt innlegg í að breyta kerfinu. Um leið og við tökum út skerðingarnar, sem eru nákvæmlega þær sömu og að skerða séreignarsparnaðinn og skerða liggur við allt sem mögulegt er og setur fólk í fátækt, hlýtur að vera svolítið undarleg staða ef við tökum einstakling sem hefur verið þingmaður alla sína tíð og leggur fyrir í séreignarsparnað, hann fer aldrei inn á skerðingarstofnun ríkisins, þ.e. Tryggingastofnun. Hann lendir aldrei í skerðingum þótt hann taki sparnaðinn út og ekki þótt hann selji einhverjar eignir.

Við segjum við þá sem eru á lægstu launum og bótum: Ef þið veikist eða farið á eftirlaun — að vísu ekki með séreignarsparnað — eða ýmislegt annað eins og söluhagnað af sumarhúsum og öðrum eignum, er það skert. Ef við horfum á þetta frá einhverjum raunhæfum sjónarhóli ætti þetta að vera öfugt. Þeir sem eru á lægstum launum og bótum ættu ekki að lenda í neinum skerðingum. Hinir sem eru á þeim hæstu eiga að taka þær á sig.

Ég upplifi það t.d. í sambandi við fjármagnstekjuskattinn, sem er 20–22%, hann er eingöngu skattur til ríkisins. Á sama tíma eru aðalskatttekjur hjá öryrkjum og láglaunafólki útsvar. Þetta er arfavitlaust og á að vera þveröfugt. Þeir sem eru á lægstu launum ættu bara ekki að borga skatt. Hinir, sem eiga fjármagnið, ættu að borga 40–50%. Til þess að jafna stöðuna.

Ég vil líka benda á að það er fagnaðarefni að frumvarp er komið fram. Ég vil ítreka að ég trúi ekki öðru en að það fari fljótt í gegnum nefndir og fljúgi í gegnum þingið og verði samþykkt. Þeir sem þetta varðar fái, mér liggur við að segja uppreist æru, úr skerðingarkerfinu. Þetta er bara fyrsta skrefið í því að sjá til þess að réttlætið nái til þeirra sem minnst hafa og standa höllum fæti. Því að við erum með svo undarlegt kerfi. Það er eitt af því sem við verðum að breyta og er svo ógagnsætt. Þetta er svo ljótt að því leyti til að við fáum peninginn í hendurnar, 15 þús. kr. í bensínstyrk, en svo er tekinn 5 þús. kr. skattur af því, þriðjungur. Þá heldur maður að maður eigi 10–11 þús. eftir, og það er rétt, þær eru í hendi augnablik. En ári seinna eru þær teknar.

Þetta er eitt af því sem fólk hefur aldrei skilið. Ég skildi þetta ekki heldur. Ég man fyrsta skiptið sem ég rakst á þetta undarlega fyrirbrigði, fyrir nær 25 árum, þegar ég lenti inni í þessu kerfi. Ég var með allt á hreinu og vissi nákvæmlega hvað ég átti að fá frá Tryggingastofnun ríkisins, en svo kom bréf 1. ágúst þar sem mér var tilkynnt um skerðingar. Ég skildi ekki hvers vegna. En jú, ég hafði fengið upphæð frá verkalýðsfélaginu, þar sem ég borgaði í sérstakan sjóð, sem ég notaði síðan í sjúkraþjálfun eða gleraugnakaup. Ég gat notað þetta í líkamsrækt. Og jafnvel í þeim tilfellum þurfti að borga skatt af því. Ég hélt að eftir skattinn fengi ég að eiga það sem eftir var. En það var einmitt þetta sem var tekið ári seinna, króna á móti krónu.

Þá fór ég að skoða þetta og áttaði mig á að var eiginlega sama hvað ég gerði. Í fyrsta lagi var gerð krafa um að öryrkjar gætu reiknað út verðbólguna ár fram í tímann til að sýna réttar tekjur um áramót og svo áttu þeir líka, ef þeir fengju styrki, að reikna út hverju það skilaði eftir skatta og hversu mikið yrði skert. Fólk átti að skilja það að þegar það fengi þetta átti það ekkert að fá þetta. Ef fólk hefði áttað sig á þessu á þeim tíma er ég viss um að margir hefðu um leið sagt: Nei, ég vil þetta ekki. Fólk hefði grætt á því að segja nei. Þá hefðu barnabætur ekki verið skertar og ekki vaxtabætur heldur.

Ég fagna þessu frumvarpi. Ég vona að það fái fljóta og góða meðferð og þakka bara enn fyrir. Ég vona heitt og innilega að þetta sé bara fyrsta skrefið í að við breytum þessu kerfi. Ég vona að það verði gert fljótt og vel. Ég er sannfærður um að ef við færum í þetta í því skyni að gera lífið betra, bæta kjörin, taka okkur saman strax og henda út öllum skerðingum, krónu á móti krónu, fyndum við réttu framfærsluna og leyfðum öllum að lifa með reisn, mannsæmandi lífi.