149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

sálfræðiþjónusta í fangelsum.

137. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem allir þingmenn Samfylkingar standa að þess efnis að fela dómsmálaráðherra að sjá til þess að frá og með 1. janúar 2019 verði a.m.k. einn sálfræðingur að jafnaði starfandi í hverju fangelsi á landinu með fasta starfsstöð í viðkomandi fangelsi. Þannig verði föngum tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu innan veggja fangelsanna þeim að kostnaðarlausu. Lagt er til að ráðherra hafi samráð við Fangelsismálastofnun og Sálfræðingafélag Íslands um tilhögun þjónustunnar, m.a. um meðferð sem veitt er, fjölda fanga á hvern sálfræðing o.fl.

Herra forseti. Þessi tillaga hefur áður verið flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar, þ.e. á síðasta löggjafarþingi, en náði þá ekki fram að ganga.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Fangelsismálastofnun starfa nú hjá stofnuninni þrír sálfræðingar, þar af einn sem hefur fast aðsetur á Litla-Hrauni og sinnir hann meðferðarstarfi þar sem og á Sogni, auk þess að annast framkvæmd áhættumats eins og verður komið að á eftir.

Fangelsispláss á Íslandi í dag eru 195 og þegar þetta er sagt eru að auki 164 einstaklingar á reynslulausn, ýmist með einhvers konar skilyrði, undir rafrænu eftirliti eða ekki. Sálfræðingunum þremur er þannig ætlað að þjónusta þann hóp, sem eru nærri 400 manns, og er þeim ætlað að þjónusta hópinn allt frá upphafi afplánunar til loka reynslulausnar. Má því segja að hver og einn sálfræðingur hafi í skjólstæðingahópi sínum um 130 manns sem hann á að annast.

Fangelsun er þvingunarúrræði sem er afar íþyngjandi. Hver einn og einasti dagur í frelsissviptingu getur verið einstaklingi mikil áþján og því verða stjórnvöld að gera eins vel og hugsast getur þegar kemur að þeim málum. Meginmarkmið með fangelsun eins og þau birtast á heimasíðu Fangelsismálastofnunar er að föngum sé tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti séu höfð í fyrirrúmi og að fyrir hendi séu aðstæður og umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við sín mál. Þeir sem komast í þær aðstæður að brjóta af sér, að við tölum nú ekki um að brjóta af sér með þeim hætti að fangelsisrefsing bíður þeirra, koma ekki úr tóminu einu. Það að vera kominn í fangelsi á sér oft og iðulega langan aðdraganda. Með því er ég að segja að bakgrunnur einstaklinga, lífið sjálft, fjölskyldusaga, mögulegar greiningar á andlegum erfiðleikum og ekki síst fíkn, sem um 90% fanga glíma við, skiptir töluverðu máli, enda afar sjaldgæft að einstaklingar hefji afplánun rétt eftir að hafa staðið upp frá steikinni, sósunni og grænu baununum.

Þeir sálfræðingar sem starfa í fangelsum hafa að auki fjölmargar skyldur á herðum sínum aðrar en að veita klíníska sálfræðiþjónustu, en við skulum muna að hver og einn sálfræðingur á að sinna 130 föngum. Sálfræðingarnir þrír eiga nefnilega líka að sinna áhættu- og þarfamati, en þar er um að ræða almannaöryggisþátt sem lýtur að því að meta hættu samfélagsins af viðkomandi einstaklingi. Slíkt mat er framkvæmt á þeim sem sæta afplánun vegna grófra ofbeldisbrota, vegna kynferðisbrota og síðast en ekki síst vegna brota gegn börnum. Slíkt mat telst nauðsynlegt til að hægt sé að auka öryggi borgaranna eftir að afplánun viðkomandi einstaklings lýkur. Þannig er metið hvort viðkomandi sé tækur til að fara á reynslulausn eftir afplánun eða annað úrræði og þá hvort mögulega þurfi að gæta að einhverjum framhaldsmeðferðum eftir að afplánun og reynslulausn lýkur. Allt þetta mat er líka í höndum þessara þriggja sálfræðinga sem þarna starfa.

Sálfræðingarnir sinna einnig ráðgjöf og eiga að styðja við fanga og fjölskyldur þeirra. Þeir eiga líka að sinna starfsemi meðferðarganga vegna fíkla á Litla-Hrauni í samstarfi við þann eina meðferðarfulltrúa sem starfar á vegum Fangelsismálastofnunar. En þetta er ekki búið því að sálfræðingarnir þrír eiga einnig að annast kennslu, umsjón og uppbyggingu sálfræðistarfs, auk ráðgjafar innan Fangelsismálastofnunar um einstök mál. og loks sinna þeir rannsóknum.

Ég held að allir sjái það, herra forseti, að sú starfsemi sem stjórnvöld hafa ákveðið að skammta í þennan málaflokk er algerlega ófullnægjandi. Við verðum að gera bragarbót á ef við meinum eitthvað með vilja okkar til betrunar hjá þeim sem lenda á bak við lás og slá.

Því að hver er tilgangur refsinga? Jú, tilgangurinn er tvíþættur. Annars vegar er um að ræða forvörn til að hægt sé að koma í veg fyrir frekari glæpi. Fangelsisrefsing er þannig talin góð til að sýna hversu óhagstætt það er að fremja glæpi. Þú ert tekinn úr umferð, þú ert settur á bak við lás og slá, en tilgangurinn er líka betrun, um það eru allir sammála, að fanginn komi út úr afplánun sem betri manneskja, reynslunni ríkari, en áður en viðkomandi fór inn. Þess vegna skiptir tími afplánunar og hvernig hann er nýttur öllu máli.

Það er rándýrt að reka fangelsi og það er rándýrt og enn dýrara að standa jafn illa að því og raun ber vitni. Það er rándýrt samfélagslega að skila einstaklingum ekki virkari út í samfélagið eftir afplánun, því að allt hið félagslega kerfi þarf að kosta miklu til framtíðar vegna einstaklings sem ekki var passað upp á, sem ekki var hlúð að þegar tækifæri gafst til. Áhersla fangelsisvistar á að vera á betrun fanga með það að markmiði að fækka endurkomum í fangelsi.

Enginn sálfræðingur hefur fasta viðveru í fangelsinu á Akureyri eða í fangelsinu á Kvíabryggju heldur koma þeir eftir hentugleika, en á þeim tveimur stöðum dvelja að jafnaði 34 einstaklingar. Einu sinni í viku mætir sálfræðingur í fangelsið á Hólmsheiði sem hýsir hvort tveggja gæsluvarðhalds- og afplánunarfanga, en þar er pláss fyrir 56 fanga — einu sinni í viku. Einn sálfræðingur hefur fasta viðveru á Litla-Hrauni og þjónustar hann líka Sogn og erum við þar að tala um tæplega 100 pláss. Við sjáum að hinir tveir, sem ekki eru með fasta viðveru á Litla-Hrauni, eru þá farandsálfræðingar sem eiga að sinna öllu hinu, öllum öðrum fangelsum, bæði þeim föngum sem eru í afplánun og, við skulum ekki gleyma því, líka þeim sem eru á reynslulausn, en það eru 164 einstaklingar. Það blasir við öllum sem vilja sjá að þetta kerfi virkar ekki og við sinnum ekki þeim skyldum okkar að betra einstaklinga sem eru í afplánun.

Í núverandi kerfi er meginmarkmið með þjónustu sálfræðinga að huga að almannahagsmunum með því að meta hættuna sem stafar af þeim einstaklingum sem þarna eru í staðinn fyrir að reyna einhvern veginn að gera þeim lífið betra og gera þetta allt saman betra fyrir okkur öll.

Herra forseti. Markmið tillögunnar er að tryggja að frá og með 1. janúar 2019 verði tryggt að í öllum fangelsum landsins verði a.m.k. einn starfandi sálfræðingur sem fangar hafa aðgang að sér að kostnaðarlausu. Best væri að einn væri að auki staðsettur á skrifstofu Fangelsismálastofnunar sem gæti þá annast þjónustu við þá sem eru á reynslulausn, auk þess að sinna rannsóknarvinnu og annars konar mati. Þó skal taka fram að tillagan gerir ráð fyrir að ráðherra verði falið að útfæra nánar hvernig þjónustan verði veitt, því að mjög brýnt er að við förum í það og án tafar.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að biðja fyrir góða kveðju til hv. þingmanns og formanns allsherjar- og menntamálanefndar sem tekur nú við málinu og óska nefndinni velfarnaðar í störfum sínum við að koma þessu máli í farsæla höfn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)