149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[18:11]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um notkun og ræktun lyfjahamps. Þetta mál er flutt af hv. þingmönnum Pírata í þriðja sinn, sýnist mér. Það hefur því fengið töluverða umfjöllun og við rætt það nokkrum sinnum og ég ætla að leyfa mér að taka til máls um það enn á ný.

Lyfjahampur er heiti yfir kannabis eða hampjurt sem notuð er í læknisfræðilegum tilgangi. Segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„Notkun hampjurtarinnar sem lyfs á sér langa sögu auk þess sem hampjurtin hefur margvíslegt annað notagildi.“

Ekki ætla ég að fara djúpt í það og viðurkenni um leið, eins og öllum er ljóst, að ég hef ekki læknisfræðilegu þekkingu og er ekki sérfræðingur í lyfjum eða lyfjameðferð. Ég hef tilhneigingu til að hlusta á mál sérfræðinga og kunnáttumanna á því sviði og eins og fram hefur komið í máli nokkurra þingmanna hafa færustu sérfræðingar hér á landi mælt gegn tillögunni. Við eigum ekki að fara að lækka þröskulda eða breyta á nokkurn hátt.

Mig langar aðeins að grípa niður í greinargerðina. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Núverandi lagaumhverfi kemur því í veg fyrir að sjúklingar sem notið gætu góðs af meðferðareiginleikum lyfjahamps geti nálgast efnið á lögmætan og öruggan hátt. Í sumum tilfellum mætti jafnvel halda því fram að staða lyfjahamps sem ólöglegs efnis gangi gegn ákvæðum laga um réttindi sjúklinga til þess að fá bestu mögulegu meðferð og heilbrigðisþjónustu sem völ er á.“

Þetta finnst mér nokkuð sérstakt. Í máli framsögumanns kom fram, ef ég hef rétt eftir, að þeir teldu að sjúklingur mætti velja það sem hann teldi best fyrir sig.

Þá velti ég fyrir mér: Eigum við að horfa fram hjá læknisfræðilegum rökum, því sem læknar leggja til varðandi meðferð? Nei, ég hallast að því að við eigum ekki að gera það.

Ef ég les upp úr umsögnum sem fylgja málinu og hafa komið inn á fyrri stigum þá segir t.d. í umsögn frá landlækni:

„Í öllum tilvikum eru til gagnreynd lyf sem gera a.m.k. jafnmikið gagn og kannabis. Í öðrum sjúkdómstilvikum ríkir óvissa um notagildi.“

Það er sannreynt að við eigum lyf sem geta nýst í sama tilgangi. Búið er að taka út efni sem virka fyrir sjúklingana í ákveðnum tilfellum fyrir utan að það er líklega mínus víman sem hlýst af því að nota kannabis, sem vitað er að ákveðinn hópur fólks sækist í.

Ef ég gríp aftur niður í umsögn landlæknisembættisins, með leyfi forseta:

„Alvarlegar aukaverkanir vegna kannabisneyslu hafa verið vel þekktar áratugum saman og nýjar hafa komið í ljós á síðustu árum. Nýlega hefur komið í ljós að vitsmunaskerðing vegna kannabisneyslu er að líkindum alvarlegri og algengari en áður var talið og sama má segja um geðrof eða sturlun.“

Ég get ekki séð að okkur sé stætt á því að hunsa ummæli sem þessi, sem koma frá landlækni, ef við ætluðum að setja okkur í þá sérfræðistöðu að segja að við þekkjum og vitum betur. Fyrir utan það búum við svo vel hér á landi að hafa öflugt fólk og góðar stofnanir þar sem vinna sérfræðingar í afvötnun og meðferð fíknisjúkdóma. Í samtölum mínum við það fólk hef ég komist að því að fráhvörf t.d. af kannabisneyslu eru hörðustu fráhvörfin sem fólk fer í gegnum. Það er oft uppi misskilningur varðandi þau efni og því haldið fram að þau séu eitthvað mildari og að saklausara sé, ef svo má að orði komast, að nota þau. Staðreyndin er hins vegar sú að fráhvörfin eru erfiðust og erfiðast að eiga við þá tegund fíknar. Við skulum horfa til þess.

Svo vil ég líka lesa upp úr umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Af texta þingsályktunartillögunnar og greinagerðarinnar sem fylgir má ráða að verið sé að opna fyrir almenna notkun og ræktun kannabis hér á landi. Þá er þar einnig talað um að lyfjahampur hafi notagildi í meðferð gegn krabbameini, taugasjúkdómum og öðrum alvarlegum sjúkdómum sem ekki er raunin.“

Þarna er annar hópur sem telur þetta.

Í umsögninni stendur líka:

„Til eru fáar vandaðar rannsóknir er sýna fram á gagnsemi lyfjahamps við þeim kvillum sem haldið er fram að lyfið virki á. Vandaðar rannsóknir hafa ekki sýnt fram á mikinn ávinning fyrir krabbameinssjúklinga. Þá getur lyfið haft margvíslegar alvarlegar aukaverkanir líkt og önnur lyf.“

Lyf sem við erum með hér á markaði, lyf sem við notum og eru viðurkennd, hafa að fara í gegnum miklar og nákvæmar rannsóknir og hafa verið rannsökuð samkvæmt nákvæmustu stöðlum. Við hljótum sem nútímasamfélag að byggja áætlanir okkar, framkvæmdir og viðhorf á rannsóknum og vísindum sem við treystum best. Í öðru orðinu hömpum við vísindum og framþróun í þeim en í hinu orðinu er okkur svo tamt að fara á móti því og ætla okkur að hafa betri þekkingu og kunnáttu á málum en þeir sem hafa menntað sig í þeim.

Í lokaorðum með tillögunni segir:

„Nauðsynlegt er að í stjórnarfrumvarpi ráðherra verði að finna breytingu á 6. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni. Þá mun ráðherra þurfa að setja reglugerð á grundvelli laganna sem setur stjórnvaldsfyrirmæli um hvernig notkun og ræktun skuli háttað. Setning slíkra reglna ein og sér er ekki svo flókin að til þess þurfi langan undirbúningstíma, engu að síður er rétt að ráðherra heilbrigðismála og ráðuneyti hans undirbúi lagafrumvarp þetta.“

Þetta finnst mér mjög athyglisvert, að það verði hægt að hrista fram úr erminni eins og ekkert sé.

Ég er mikill talsmaður ræktunar og þess að við nýtum landið, nýtum auðæfin hér á landi, notum rafmagnið til að framleiða grænmeti og matvæli, en þarna set ég mörkin. Ég held að þetta sé ekki leiðin fyrir okkur til að nýta auðlindirnar. Ég sé ekki hvaða leið er hægt að fara í því. Það má vel vera að ég sé of þröngsýn þegar kemur að þessu en það er svolítið stórt skref að fara út í það að rækta hampjurt eða kannabis hér á landi í því skyni. Nóg er víst ræktað af því, er mér skilst, og við erum að reyna að glíma við það og stoppað það. Í allri ræktun þurfa menn að leggja áherslu á að hvaða kvæmi eru notuð, hvaða aðferð er best, hvað hentar markaðnum og til hvers á að nota það. Ekki hef ég vit á því í þessu. Ég get kannski ræktað gras og tún, en þetta er ekki það sem ég myndi leggja áherslu á. Þetta hlýtur að vera töluvert langt ferli og eiga langt í land.

Ég hvet okkur til þess að hlusta á okkar færasta fólk og færustu sérfræðinga í þeim efnum. Við erum að glíma við aukna neyslu eiturlyfja hér á landi, því miður, það er staðreyndin hér eins og víða annars staðar, en niðurstöður allra rannsókna og allt sem við höfum skoðað sem kemur að fíknsjúkdómum og neyslu segir okkur að aukið aðgengi auki notkun. Því miður er staðan sú og við verðum að horfa til þess. Segjum sem svo að hér verði einhver ræktunarhéruð og sérstakar sveitir í þessu, þá myndi aðgengi líklega aukast. Hvernig ætlum við framkvæmum það? Hvaða ramma ætlum við að hafa utan um það? Fyrir utan það þá höfum við lyf hérna sem er búið að rannsaka. Búið er að finna efni og búa til efni sem hafa sömu áhrif og ætluð eru hampjurtinni, þannig að ég held að ekki sé ástæða til að fara í þetta.

Ég mun ekki treysta mér til að styðja þetta mál í ljósi þess að ég vil hlusta á okkar færasta fólk í þeim efnum, sem kann til verka og veit klárlega um hvað það er að tala. Ég held að við höfum ágætan ramma utan um slík mál hér. Það er horft til okkar þegar kemur að meðferð við fíknisjúkdómum. Ég held að við ættum að halda þeim stað og horfum á virtar rannsóknir og vísindi og fara að leiðbeiningum okkar færustu manna.