150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

umfjöllun um Samherjamálið.

[15:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég kem hingað upp eingöngu til þess að taka undir orð kollega minna um beiðni til forseta um að hann hafi, ef mögulegt er, forgöngu um að hæstv. sjávarútvegsráðherra og hæstv. forsætisráðherra verði hér meðal ráðherra til svara á morgun undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir. Þetta er stóralvarlegt mál sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðastliðinn sólarhring, mál sem þarf að taka alvarlega. Við verðum að sinna okkar starfi og það er mjög mikilvægt að við höfum, á upphafsstigum þess að farið verði ofan í kjölinn á þessu máli, aðgengi að þessum ráðherrum hið minnsta til að byrja með. Ég vænti þess að það verði mögulegt að taka vel í þessa beiðni okkar.