150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

umfjöllun um Samherjamálið.

[15:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir það að við fáum sérumræðu um þetta. En það sem slær mig mest er að það er akkúrat ár síðan að við komumst í heimsfréttirnar út af drykkjulátum á bar í 100 m fjarlægð héðan. Hverjum var kennt um það? Hverjum var kennt um að þannig fór? Jú, uppljóstraranum. Hvað erum við að upplifa í dag? Spillingu sem er bara langt út fyrir það sem maður getur ímyndað sér. Og hverjum er kennt um? Uppljóstraranum. Ég held að við verðum að fara að líta í eigin barm á þessu þingi og átta okkur á því að á sama tíma og þetta gengur yfir getum við ekki einu sinni, sem segir allt um okkar sögu, séð til þess að okurfyrirtæki eins og Smálán hætti starfsemi. Ef við getum það ekki, hvernig í ósköpunum ætlum við þá að taka á svona spillingu?