151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:40]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góðar spurningar. Ég vil í fyrsta lagi segja varðandi umsóknarfrestinn, og kannski kemur það ekki nógu skýrt fram í frumvarpinu, að ástæða þess að þetta gildir til 30. september er sú að við erum að skapa fyrirsjáanleika til 30. júní þannig að íþróttafélög geti vitað að við ætlum að brúa bilið; ef það koma frekari sveiflur í þessu þá vita menn bara að með þessum lögum verður það tryggt. Hugsunin við vinnslu málsins var sú að strax og þetta frumvarp hefði verið samþykkt yrði hægt að hefja vinnslu við fyrstu greiðslu aftur til 1. október þannig að hægt sé að klára það og á þeim tíma sem Vinnumálastofnun þarf til þess. Mínar væntingar standa til þess að það gæti gerst í janúar eða eitthvað slíkt. Síðan væri hægt að vinna það kannski á tveggja mánaða tímabili eða eitthvað slíkt þannig að við værum aftur að tala um mars og svo júní eða hvernig sem það væri. Það hefur alla vega verið minn skilningur og ráðuneytisins og ég veit að Vinnumálastofnun vill að það verði gert með þeim hætti þannig að það er eitthvað sem væri gott að skerpa á við vinnslu málsins.

Varðandi verktakagreiðslur þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að upphaflega vorum við að vinna með það að í frumvarpinu yrðu bæði launagreiðslur og verktakagreiðslur og möguleiki á því að verktakagreiðslur væru kannski hlutfallslega eitthvað örlítið lægri, kannski 90% eða 80% eða eitthvað slíkt. Niðurstaðan varð hins vegar sú, frumvarpið er unnið í góðu samstarfi milli fleiri ráðuneyta, að fjármálaráðuneytið lagði mikla áherslu á að Vinnumálastofnun væri ekki að greiða fyrir verktakagreiðslur, Vinnumálastofnun væri að vinna með launamenn. Það er alveg rétt, Vinnumálastofnun er almennt að vinna með launagreiðslur launamanna. Þess vegna varð lendingin sú að taka sambærilega upphæð og sett er í þetta frumvarp í sérstakan sjóð sem væri hægt að sækja í til verktöku. Ekkert af þessu er hafið yfir gagnrýni og hægt er að fara betur yfir þetta við vinnslu málsins enda stóð upphaflega til að þetta væri með öðrum hætti. Engu að síður gerum við ráð fyrir að brúa hvort tveggja (Forseti hringir.) en þá með tvennum aðgerðum, skulum við segja. Og ég náði ekki einu sinni að svara þessu.