151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er kærkomið að ræða hér stuðning eða greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs, enda eru íþróttafélög mörg hver ansi hreint illa stödd eftir mánaðalangan kórónuveirufaraldur og alveg ljóst að þetta mun hafa mikil áhrif á íþróttastarf á Íslandi til frambúðar, og ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Við höfum rætt hér í andsvörum um greiðslur til verktaka, sem eru u.þ.b. helmingur af þeim sem starfa hjá íþróttafélögunum, og hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra gerði þá kröfu til hæstv. félagsmálaráðherra að kippa verktökunum út úr þessu frumvarpi. Mér þóttu rök hæstv. félagsmálaráðherra fyrir því ekki nógu burðug og þar sem hæstv. fjármálaráðherra er ekki á staðnum getum við ekki spurt hann hvað valdi þessu. En það er alveg augljóst að þetta mun valda vandræðum í kerfinu, auka flækjustig, minnka gagnsæi og fyrirsjáanleika í þessu öllu, því að þetta er starfsfólk sem er hlið við hlið. Við getum ekki tryggt að sömu reglur gildi fyrir launamann og verktaka, að annar hópurinn fer, að því er virðist, í gegnum Vinnumálastofnun. Hinn hópurinn fer í gegnum skrifstofu í ráðuneyti menntamála og íþróttamála o.s.frv. Annað frumvarpið mun vera afgreitt hjá hv. velferðarnefnd, hitt málið, ef það kemur hingað, ef þetta verður ekki tekið af skúffufé ráðherra, verður afgreitt í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Samræmið er því í hættu og flækjustigið aukið.

Ég ætla ekki bara að vera boðberi válegra tíðinda en mér finnst þetta óþarfi. Mér finnst óþarfi, herra forseti, að vera að auka flækjustigið. Íþróttafélögin berjast í bökkum í dag. Styrkir til íþróttafélaga og stuðningur lögaðila hefur líka hrunið. Sala miða á leiki er auðvitað engin o.s.frv. Rætt hefur verið um mikilvægi íþróttastarfs á Íslandi er varðar forvarnir barna, er varðar lýðheilsu barna, ungmenna og bara allra, er varðar geðheilsu. Við skulum ekki vanmeta útrásina sem bæði iðkendur og dyggir stuðningsmenn fá á pöllunum. Útrásina sem við fáum þar þegar við erum að hvetja okkar fólk áfram. Hún er líka nauðsynleg fyrir þjóðarsálina. Svo skulum við ekki horfa fram hjá því að við horfum á ástand sem tekur mögulega 5–20% af öllum atvinnumannaferli ákveðins hóps. Þetta eru nokkrir mánuðir í lífi okkar og í mörgum öðrum atvinnugreinum er hægt að horfa á þetta sem nokkra mánuði af lífinu, sem mun jú hafa einhver áhrif áfram. En þegar um er að ræða atvinnumenn í íþróttagreinum, afreksíþróttafólk, getur tímabil sem farið er að spanna um eitt ár verið drjúgur partur af atvinnumennskunni, að við tölum nú ekki um unga fólkið og brottfallið og allt það. Þannig að það skiptir mjög miklu máli að íþróttafélögin geti haldið áfram störfum hér þegar samfélagið fer aftur af stað, en geti líka áfram ráðið til sín starfsfólk sem getur sinnt þjálfun og getur sinnt íþróttum og íþróttaiðkun.

Ég hef nokkrar áhyggjur af flækjustiginu sem verið er að bjóða upp á. Við skulum ekki gleyma því að íþróttafélög á Íslandi eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þau eru keyrð áfram af miklum fjölda sjálfboðaliða á öllum aldri. Þetta er félagslegur vettvangur, lýðheilsueflandi og ég veit ekki um neitt íþróttafélag á Íslandi sem tekur út eina einustu krónu. Þetta fer allt saman inn í starfið, þannig að þetta er fjárfesting. Það er fjárfesting fyrir íslenska ríkið að stuðla að því að íþróttafélögin hverfi ekki eitt af öðru af vellinum, ef svo má segja.

Það eru ýmsir dagsetningar í þessu sem mér finnst vert að vekja athygli á, t.d. varðandi tímabilið. Hér er talað um tímabilið frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021. Eins og ég kom inn á í andsvari áðan er gert ráð fyrir að lögin gildi um tímabundnar greiðslur vegna launakostnaðar íþróttafélaga sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 og er gert að fella tímabundið niður starfsemi á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021 vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í skilningi frumvarpsins. Þetta er langt tímabil, mjög langt. En frumvarpið á að ná til nærri 500 íþrótta- og ungmennafélaga, sérsambanda, héraðssambanda og íþróttabandalaga. Þess vegna velti ég fyrir mér fjárhæðinni sem tilgreind er þegar um er að ræða nærri 500 lögaðila sem þetta á að eiga við, þegar horft er á mat á áhrifum í frumvarpinu. Hún er sögð vera 500 millj. kr. vegna tímabilsins frá 1. október 2020–30. júní 2021. Þetta er átta mánaða tímabil. Gert er ráð fyrir að íþróttastarf muni ekki sæta eins miklum takmörkunum frá upphafi árs 2021 og til loka júnímánaðar 2021 og verið hefur núna síðustu mánuði og síðustu vikur, en þó gert ráð fyrir að íþróttastarfið muni sæta nokkrum takmörkunum í desember 2020, eins og raunin er. Þannig er staðan núna, það eru enn engar æfingar leyfðar á Íslandi hjá þeim sem eru eldri en 15 ára. Við vitum auðvitað ekki hvað gerist 9. desember en ég þykist vita að a.m.k. verði ekki farið að selja miða inn á leiki á þeim tíma, enda alveg ljóst að það er búið að blása alla slíka leiki af til a.m.k. áramóta og mögulega lengur því að það er beinlínis hættulegt fyrir fólk að ætla að fara að keppa í íþróttum of snemma þegar það hefur ekki fengið að þjálfa neitt svo heitið geti vikum og jafnvel mánuðum saman. Að fjárhæð frumvarpsins, mat á kostnaði við þennan stuðning, þennan algjörlega nauðsynlega stuðning, hljóði upp á 500 milljónir, tel ég vera mikið vanmat. Ég velti því fyrir mér hvort það við gerum málinu gott að koma með slíka tölu inn í þingið sem er mögulega ekki í neinum tengslum við raunveruleikann af því að það hefur engin starfsemi fengið að vera hjá íþróttafélögunum í tvo mánuði. Launafólk er vissulega þarna undir en ekki verktakar. En það kemur ekkert annað inn, ekki styrkir nema í sáralitlu mæli og ekki miðasala, eins og áður sagði, eða sala á árskortum. Ég er ansi hrædd um að þessi fjárhæð sé vanmat, en kannski er hún sett þarna inn til að hæstv. fjármálaráðherra hleypi málinu út úr ríkisstjórn. Ég átta mig ekki alveg á því.

Aftur segi ég: Það er þjóðhagslega mikilvægt, það er samfélagslega mikilvægt, það er mikilvægt fyrir lýðheilsu og forvarnir lítillar þjóðar á eyju að við styðjum við íþróttafélögin í landinu. Við eigum að gera það þannig að eftir sé tekið, þannig að það muni um það, af því að íþróttafélögin munu ekki senda þessa peninga í skattaskjól á fjarlægum eyjum eða í djúpa vasa einhverra eigenda sinna. Það er alveg á hreinu. Við munum alltaf græða á því þegar lengra er litið að hafa stutt myndarlega við íþróttafélögin á Íslandi.