151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:24]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég hlakka til þessarar vinnu. Það sýnir kannski mikilvægi íþróttahreyfingarinnar í heild fyrir íslenskt samfélag að hér séu þrír hæstv. ráðherrar undir, ráðherra fjármála, ráðherra félagsmála og ráðherra íþróttamála, eða menntamálaráðherra. Það er einfaldlega þannig.

Mig langar til að nota tækifærið hér og velta einu upp sem ég hef haft ákveðnar áhyggjur af í tengslum við alla umræðu um neikvæð áhrif kórónuveirufaraldursins á íþróttafélögin, eða öllu heldur á börn sem stunda íþróttir. Það hefur komið fram að þrátt fyrir að gripið hafi verið til þess, seint og um síðir vissulega, að aðstoða forsvarsmenn barna, þ.e. þá sem misst hafa vinnu og tekjur í þessum faraldri, við að borga fyrir íþróttaiðkun barna sinna, þá er fáránlega lítill hluti þess nýttur í það. Það hefur komið fram í samtölum við félagsmálayfirvöld, svo dæmi sé tekið. Þetta er ákveðið flækjustig, það er kannski erfitt að ná til barna og fullt af starfsemi sem lýtur að utanumhaldi þeirra liggur niðri. Ég velti því upp hvort íþróttafélögin ættu ekki að vera ríkari þáttur í þeirri vinnu að teygja sig til barnanna. Það hljóta að vera þau sem hafa yfirsýn yfir það hver eru horfin á braut og það skiptir máli í sambandi við starfsemi þeirra. Það er ekki endilega hluti af því tiltekna verkefni sem við ræðum hér, en við þurfum að fókusera á stóru myndina, eins og talað hefur verið um. Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri áhugavert að taka þetta inn í myndina þegar velferðarnefnd fær það krefjandi og áhugaverða verkefni að ræða þetta málefni svolítið í heild sinni.