151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það væri auðvitað hægt að halda langar ræður um mikilvægi íþróttastarfs og mikilvægi þess fyrir forvarnagildi og lýðheilsu almennt. En ég ætla ekki að gera það vegna þess að það er bara staðreynd og það þarf ekkert að eyða ofboðslega mörgum orðum í það. Ég ætla þó að segja það að gildi þriðja geirans, hvort sem það er í formi íþróttafélaga eða annarra félagasamtaka sem eru að láta gott af sér leiða í almannaheill, er alveg gríðarlega mikið. Þess vegna var mjög gott að hæstv. fjármálaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi um skattalega hvata fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla. Við ræddum það mál hér aðeins í gærkvöldi og ég held að það sé mikilvægt að við afgreiðum málið hið fyrsta og vil nota tækifærið og hvetja fyrirtæki til samfélagslegrar ábyrgðar. Þó að ástandið sé eins og það er í þjóðfélaginu í dag eru mörg fyrirtæki sem ekki horfa fram á tekjusamdrátt og ég ætla að hvetja þau til að halda áfram að styrkja íþróttafélögin. Það skiptir svo sannarlega máli núna því að við sjáum hversu mikið tekjufallið er þó hjá þessum ágætu íþróttafélögum.

Það er auðvitað ofboðslega sorglegt að sjá hér í greinargerðinni og heyra að íþróttafélögin eru farin að finna fyrir brotthvarfi. Nú þegar hefur orðið töluvert brotthvarf barna og unglinga í kjölfar Covid og það er auðvitað háalvarlegt mál. Við verðum að finna leiðir sem allra fyrst til þess að börn og ungmenni geti með öruggum hætti stundað sínar íþróttir því að það skiptir svo miklu máli inn í framtíðina.

Ég ætla því að fagna þessu frumvarpi, fagna því að stigið sé fram og að við ætlum að styðja myndarlega við íþróttahreyfinguna. Það er mikilvægt og það er gott. Ég ætla þó að velta því upp hvort hægt væri að fara einfaldari leið að því mikilvæga og góða markmiði. Hér hefur hlutabótaleiðin verið nefnd. Það var auðvitað þannig að íþróttafélögin gátu á fyrstu stigum sótt um hlutabótaleiðina og nýttu það mörg. Ég er hreinlega mjög hugsi yfir þeim breytingum sem við gerðum á hlutabótaleiðinni á sínum tíma sem varð þess m.a. valdandi að félög eins og íþróttafélög gátu ekki lengur sótt í þá leið. Við höfum þróað form í kringum tekjufallsstyrki hjá fyrirtækjum og íþróttafélögin, þótt þau flokkist ekki undir að vera hefðbundin fyrirtæki, eru bæði að sýna fram á töluvert tekjufall og hafa ekki haft þörf fyrir fullt vinnuframlag hjá starfsmönnum sínum. Ég beini því bara inn í umræðuna að við veltum því fyrir okkur hver sé hagkvæmasta og besta leiðin til að koma því fjármagni til skila sem við ætlum að skila til baka inn í íþróttahreyfinguna vegna þess ástands sem þar er uppi. Á sama tíma verðum við auðvitað að muna það að íþróttahreyfingin er að vinna gríðarlega mikilvæga vinnu fyrir okkur sem samfélag. Ef ekki kæmi til greiðslu eins og þeirrar sem hér er talað um, það er verið að tala um 400 milljónir í þessum fasa, myndi það alltaf kosta samfélagið enn meira síðar, í einhverju öðru formi.

Hér hefur líka aðeins verið komið inn á verktakagreiðslurnar og ég skil að það hafi verið eitthvert flækjustig varðandi það hvort Vinnumálastofnun gæti tekið slíkt að sér. Þess vegna, ef ég skildi rétt, mun hæstv. ráðherra íþróttamála vera með sérstakt úrræði þar að lútandi. Ég beini því til hv. velferðarnefndar, sem fær þetta mál til umfjöllunar, að það skiptir máli að koma þessum peningum út hið fyrsta til íþróttahreyfingarinnar en við þurfum líka að velta fyrir okkur hvaða farveg við erum nú þegar búin að búa til til að styðja við aðila sem eru að glíma við mjög sambærileg vandamál og íþróttahreyfingin, þó að hún hafi ekki ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Það voru margir í þessum sal sem höfðu svo ofboðslega miklar áhyggjur af því að hlutabótaleiðin yrði einhvern veginn misnotuð og hér væru örugglega einhver fyrirtæki í skattaskjólum eða eitthvað að nýta þá leið. Þegar á hólminn er komið er þetta leið sem nýttist fyrst og fremst starfsfólkinu sjálfu. Í stað þess að vera sagt upp og þurfa að fara á atvinnuleysisbætur var ráðningarsambandi haldið. Sú leið hefði, og gerði það að sjálfsögðu líka á sínum tíma, nýst fyrir íþróttafélögin. Ég vil koma því að í umræðunni að meðan við deilum hér út umtalsverðu ríkisfé — og ég styð það og stend svo sannarlega með því af því að þörf er á að koma fé til íþróttafélaganna, þeirrar mikilvægu starfsemi — þurfum við líka að velta fyrir okkur þeim farvegi sem við setjum málin í.

Í þessu sambandi vil ég líka nefna sveitarfélögin. Sveitarfélögin hafa auðvitað styrkt íþróttahreyfinguna gríðarlega eða kannski ættum við frekar að segja að þau hafi keypt af þeim þjónustu. Það er bara þannig að sveitarfélögin eru að fá gríðarlega þjónustu, eins og ríkisvaldið, frá íþróttahreyfingunni. Við fórum inn með mjög góða tillögu sem gekk út á það að deila út fjármunum til barna sem kæmu úr fátækum fjölskyldum eða ættu í erfiðleikum með að greiða gjöldin sín, ofboðslega falleg og góð hugmynd. En aftur, við þurftum að setja upp sérstakt kerfi fyrir það. Bara svo ég komi því að hér þá hef ég heyrt sveitarstjórnarfólk segja: Heyrðu, komið bara með þetta fjármagn til okkar — því að sveitarfélögin hafi vissulega líka orðið fyrir tekjufalli — og við finnum hagkvæmar og öruggar leiðir til að skila því til baka. Nú er ég ekki að segja að það eigi nákvæmlega við í þessu máli hér en munum að sveitarfélögin eru auðvitað einn helsti bakhjarl íþróttafélaganna og að það er ástæða til að horfa til þess þegar við horfum lengra inn í framtíðina.

Að öðru leyti óska ég hv. velferðarnefnd góðs gengis við að fást við frumvarpið og minni á að við horfum á þessa farvegi sem við erum að nýta og hversu fljótir og hagkvæmir og skilvirkir þeir eru.