151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[19:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Hún hefur á margan hátt verið áhugaverð þó að fátt hafi komið neitt sérstaklega á óvart. Full ástæða er til að þakka þann hlýhug sem ræðumenn hafa sýnt í garð íslensks landbúnaðar. Það er tvímælalaust ánægjulegt og gott þó svo að ræðumenn greini á um með hvaða hætti eigi að styrkja hann og styðja við hann.

Ég vil nefna örfá atriði varðandi það sem hefur komið fram, t.d. fullyrðingar um að þessi breyting muni koma til með að hækka verð til neytenda. Ég held að það sé ekki á færi nokkurs manns að svara því. Verð á heimsmarkaði á kjöti hefur lækkað um 14% það sem af er ári. Við höfum ekki hugmynd um hvernig það kemur til með að endurspeglast í verði á hugsanlegum innflutningi til neytenda hér. Verðið hlýtur sömuleiðis að ráðast af þeirri eftirspurn sem verður eftir tollkvótum í næsta útboði. Það má ekki draga úr því að lækkunin sem varð á tollkvótum við útboðið í júní stafar að hluta til af því mikla magni sem þá var boðið út. Sömuleiðis eru áhrifin af Covid-19, sem hér hafa verið nefnd, greinileg í þá veru að hafa áhrif á hversu hátt aðilar buðu. Auðvitað á breytt úthlutunin einhvern hlut sömuleiðis í þeirri lækkun sem varð á útboði.

Það eru í rauninni í mínum huga allt of margir óvissuþættir í stöðunni í dag til að menn geti fullyrt með afgerandi hætti að sú breyting sem hér er um rætt hækki verð til neytenda. Ég held að við höfum ekki nein bein skilaboð um það. Ég hef átt viðræður við aðila í íslenskri verslun og meðal innflytjenda sem flestir hafa fullan skilning á innihaldi frumvarpsins sem hér er verið að flytja. Þá stafar sá skilningur af því að þeir meta stöðuna í ljósi þeirra aðstæðna sem við er að glíma í þessum efnum.

Í tilefni þess sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sagði, varðandi það að bændur og búalið hafi viðurværi með einhverjum öðrum hætti en í dag, ætla ég að segja að það er vandrataður vegur að finna. Það hefur verið reynt að nálgast það í endurskoðun búvörusamninga undanfarin ár, m.a. eru komnar inn ákveðnar nýjungar í því. Sérstaklega á það við um sauðfjárræktina og kallast þar aðlögunarsamningar.

Ég get alveg tekið undir það með þeim þingmönnum sem nefnt hafa að grunnurinn undir velgengni þjóðfélags liggur m.a. í frjálsum viðskiptum. Það er langur vegur frá að ég geti tekið undir þær fullyrðingar sem komu fram í máli hv. þingmanns hér áðan um að þetta mál sé eitthvað vandræðalegt fyrir þá flokka sem standa fyrir frjálslyndi og hafa talað fyrir því. Breytingin sem hér er verið að leggja til er eingöngu sú að hverfa frá því fyrirkomulagi við úthlutun tollkvóta sem gilti þegar Viðreisn fór með landbúnaðarmál í ríkisstjórn Íslands. Breytingin er ekki stærri en það. Ekki voru gerðar miklar breytingar í þeim efnum í þeirri stjórnartíð.